
Adam Örn til Leiknis
Adam Örn Arnarson er genginn til liðs við Leikni frá Fram. Bakvörðurinn skrifaði í dag undir samning sem gildir út næsta ár.
Leiknir fagnar því að endurnýja kynnin við leikmanninn en hann kom á láni til Leiknis sumarið 2022 og spilaði þá 10 leiki með liðinu í Bestu deildinni.
Adam Örn á að baki flottan knattspyrnuferil. Hann er uppalinn hjá Breiðabliki en fór ungur til útlanda og spilaði í áratug í Hollandi, Noregi, Danmörku og Póllandi.
Hann er reynslumikill, hæfileikaríkur leikmaður með góðan karakter og mun án efa hjálpa liðinu vel það sem eftir lifir tímabils.
Hér má sjá viðtal sem tekið var við Adam Örn sumarið 2022 þegar hann spilaði síðast í Breiðholtinu.