Æfingaleikjasigur gegn nýliðum ÍBV
Hermann Hreiðars og hans menn í ÍBV komu í heimsókn á þessum blíða fimmtudagseftirmiðdegi og öttu kappi við Leiknismenn á Domusnovavellinum í æfingaleik sem lauk með 4-2 sigri Leiknis.
Það er ekki ofsögum sagt að Stolt Breiðholts var með yfirhöndina allan leikinn og kom fyrsta markið á 5.mínútu þegar Mikkel Dahl sparkaði fast í átt að marki en varnarmaður Eyjamanna skallaði í eigið net þegar hann reyndi að skalla frá.
Gestirnir jöfnuðu þó skömmu síðar en sá sænski, Emil Berger, setti hann þá bara stöngin inn úr aukaspyrnu á 30.mínútu. Mikkel Dahl bætti svo við marki sem verður ekki tekið af honum fyrir leikhlé en í seinni hálfleik fengum við skallamark frá Pólverjanum knáa, Maciej Makuszewski.
Við þökkum Hermanni og Eyjamönnum að sjálfsögðu fyrir leikinn og komuna í Breiðholtið og óskum þeim góðs gengis í sumar.
Nú nálgast tímabilið í Bestu deildinni óðfluga og það er gaman að sjá mennina fremst á vellinum skila sínu og liðið yfir höfuð fullt ákafa og nokkuð nálægt því að vera klárt í átökin sem framundan eru. Það stefnir allavega í mikinn hörgul á 0-0 jafnteflum ef marka má undirbúningstímabilið.
#StoltBreiðholts