Fara á efnissvæði
IS EN PL
Aegirstand
Fréttir | 17.09.2023

Ægir 0-5 Leiknir

Strákarnir okkar slógu smiðshöggið á venjulegt leiktímabil í Lengjudeildinni með miklum glæsibrag í slagviðri í Þorlákshöfn í hádeginu í gær laugardag. 5 marka sigur með hreinan skjöld og ein búningaskipti.

Fyrir leikinn var orðið ljóst að Leiknir yrði í 5. sæti deildarinnar hvernig sem leikurinn eða aðrir leikir færu. Að sama skapi var lið Ægis fallið niður í 2. deild fyrir nokkru og því að engu að keppa í skelfilegu veðri. Lykilatriðið líklega fyrir okkar menn að klára tímabilið vel, sleppa við meiðsli og fara í stuði inn í umspil gegn Aftureldingu á miðvikudag. 

Aðalmarkaskorarinn Omar Sowe var í leikbanni og því mátti búast við að markaskorun yrði kannski af skornum skammti, auk þess sem vindur og rigning voru í aðalhlutverki. En strákarnir sáu sem var að besta leiðin til að hlýja sér á suðurströnd Íslands í miðjum september er að skora mörk, og nóg af þeim. 

Í byrjunarliði Leiknis voru heilir 7 uppaldir Leiknismenn og allir 5 varamenn leiksins voru einni uppaldir. Hvernig sem framhaldið verður er hægt að segja að þetta hafi verið tímabil þar sem hjartað í félaginu hefur verið fundið á ný með því að blóðga fjöldan allan af Breiðhyltingum í meistaraflokki. 

Það er skemmst frá því að segja að botnliðið sem hafði veitt okkur góða barátta í Breiðholti fyrr í sumar, var heillum horfið og hélt engan veginn í við öruggan leik okkar manna. Það var því bara tímaspursmál og kom engum á óvart þegar þeir Danni Finns og Róbert Hauks skoruðu hvor sitt markið með tveggja mínútuna millibili þegar um 12 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. 

Í leikhléi skiptu okkar menn úr bláu treyjunum í hvítu varatreyjurnar til að þurrka sér aðeins. Hörmungarveðrið hélt þó áfram og tók um 2 mínútur að gegnvæta drengina. En þeir létu ekki segjast og héldu áfram að sækja af krafti á heillum horfna heimamenn. Robbi Hauks bætti við öðru marki áður en Jón Hrafn Barkarsson, nýorðinn tvítugur daginn áður, setti sína tvennu á þriggja mínútna tímabili. Þetta voru jafnframt hans fyrstu mörk fyrir meistaraflokk í Íslandsmóti. 

Viktor Freyr var vandanum vaxinn í þau fáu skipti sem heimamenn gerðu sig líklega og uppskar hreint lak í lok leiks. Frábær frammistaði við erfiðar aðstæður og gott veganesti ef veðrið lætur ekki að stjórn núna þegar hvert spark skiptir máli þartil yfir lýkur. 

Nú er það bara lokaheimaleikurinn á Domusnovavellinum þetta árið og það gegn Aftureldingu um sæti í úrslitaleik á Laugardalsvelli. Spilað verður klukkan 16:30 og því mikilvægt að gera viðeigandi ráðstafanir og mæta tímanlega til að sýna stoltið í verki í Breiðholti. 

 

#StoltiðUpp