
Baráttan heldur áfram í Kórnum
Það var kaflaskiptur leikur á Domusnovavellinum síðasta föstudag þegar Leiknir og Þróttur gerðu 1:1 jafntefli. Shkelzen Veseli jafnaði þá leikinn eftir að Kári Kristjánsson hafði komið gestunum yfir í upphafi leiks. Bæði lið fengu svo færi til að skora fleiri mörk en jafntefli var niðurstaðan. Næst er það leikur gegn liðinu í þriðja sæti deildarinnar, HK í Kópavoginum. Þetta er leikur í fjórtándu umferð deildarinnar og hefst kl. 19:15 föstudaginn 25. júlí. Dómari leiksins verður Arnar Þór Stefánsson. Hægt er að kaupa miða á Stubbi, hérna er tengill þangað.
HK er í þriðja sæti deildarinnar með 24 stig og markatöluna 25:15. Þeir töpuðu síðasta leik sínum 1:2, heimaleik gegn Þór frá Akureyri. Þar á undan unnu þeir ÍR. Markahæsti leikmaður HK er einnig markahæsti leikmaður Lengjudeildarinnar, Dagur Orri Garðarson hefur skorað 10 mörk í 13 leikjum til þessa. Á eftir honum koma Jóhann Þór Arnarson með 4 mörk, Tumi Þorvarsson með 3 mörk, Birnir Breki Burknason með 2 mörk og sex leikmenn með eitt mark hver.
Leiknir er í ellefta sæti deildarinnar með 10 stig og markatöluna 13:28. Dagur Ingi Hammer er markahæsti leikmaður liðsins með 6 mörk en Shkelzen Veseli kom sér upp í 3 mörk á tímabilinu með markinu gegn Þrótti í síðustu umferð. Á eftir þeim koma svo fjórir leikmenn með eitt mark hver.
Þessi lið mættust síðast í byrjun tímabils, á Domusnovavellinum í maí. Leiknir átti góða spretti og góð færi í þeim leik en það voru gestirnir úr Kópavogi sem skoruðu eina mark leiksins og náðu í öll þrjú stigin. Nú er tækifæri til að bæta fyrir það.
Við vonum að það verði vel mætt í Kópavoginn og strákarnir fái góðan stuðning í þessu verkefni. Það er stutt í næsta leik eftir þennan, Keflavík mætir í Breiðholtið á þriðjudaginn.
Áfram Leiknir!