Fara á efnissvæði
IS EN PL
Mjólkurbikarinn Lógó
Fréttir | 15.04.2025

Bikarleikur í Keflavík

Strákarnir okkar halda til Keflavíkur til að spila í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins gegn heimamönnum í Nettóhöllinni. Leikurinn hefst kl. 14:00 á fimmtudaginn 17. apríl. Við hvetjum sem flest Leiknisfólk til að gera sér ferð til Keflavíkur í páskafríinu til að styðja liðið.

Tímabilið hjá Leikni hófst formlega sunnudaginn 6. apríl þegar liðið vann 5:0 sigur á Kríu í 2. umferð Mjólkurbikarsins. Dagur Ingi Hammer Gunnarsson og Shkelzen Veseli skoruðu tvö mörk hvor og fyrirliðinn Daði Bærings Halldórsson skoraði eitt mark.

Leiknir og Keflavík hafa aðeins mæst einu sinni áður í bikarkeppninni. Það var í 16-liða úrslitum VISA-bikarsins árið 2006. Leikurinn fór fram á Leiknisvelli fimmtudaginn 6. júlí 2006 og endaði með 0:3 sigri Keflavíkur. Stefán Örn Arnarson (2) og Guðmundur Steinarsson skoruðu öll mörk leiksins í fyrri hálfleik. 

Leiknir hafði komist í 16-liða úrslit með því að leggja ÍH að velli 2:4 í 3. umferð (Mentor Zhubi með þrjú og Pétur Örn Svansson eitt) og ÍR 0:2 í 4. umferð (Pétur Örn Svansson og Tómas Michael Reynisson eitt hvor).

Keflvíkingarnir mættu hins vegar beint í 16-liða úrslitin þetta árið eins og hin 10 liðin í Landsbankadeildinni. Þeir voru líka hvergi nærri hættir eftir þennan sigur heldur héldu áfram og unnu ÍA í 8-liða úrslitum í miklum markaleik á Akranesi sem endaði 3:4. Í undanúrslitum fór Keflavík í Fossvoginn og sigraði Víkinga 0:4. Úrslitaleikurinn var svo gegn KR sem Keflavík vann með tveimur mörkum gegn engu.

Keflavík á mikla sögu í bikarnum en okkar menn eru hvergi bangnir og hlakka til að takast á við þessa áskorun. 

Það styttist líka í að Lengjudeildin hefjist, fyrsti leikur Leiknis í deildinni verður föstudaginn 2. maí. Meira um það síðar.

 

Áfram Leiknir!