Fara á efnissvæði
IS EN PL
Daguraustmann (1)
Fréttir | 07.12.2022

Dagur Austmann yfirgefur félagið

Dagur Austmann er á leið frá Leikni eftir þrjú góð tímabil hjá félaginu okkar. Þessi gæðadrengur spilaði í öllum varnarstöðum fyrir félagið og átti stóran þátt í því að koma liðinu í efstu deild sumarið 2020 og halda því þar sumarið á eftir. 

Dagur spilaði 55 leiki í deild og bikar fyrir Stolt Breiðholts á þessum þremur árum en hann ætlar að reyna fyrir sér annars staðar nú þegar samningur hans við félagið er að renna út: „Ég hef legið undir feld frá því að Besta deildin kláraðist og hef komist að þeirri niðurstöðu að mig langar í nýjar áskoranir. Ég hef átt frábæran tíma hjá Leikni, hef þroskast mikið sem leikmaður og ekki síður sem einstaklingur. Sumarið í sumar var erfitt og að hafa ekki náð að halda okkur í deildinni voru mikil vonbrigði en lærdómurinn sem maður dregur eftir sumarið er dýrmætur og þann lærdóm á ég eftir að nýta til að bæta mig. Að hætta í Leikni er erfið ákvörðun því þar hefur verið mjög skemmtilegt að vera, efnilegir strákar að koma upp og framtíðin er björt," sagði Dagur í samtali við Fótbolta.net í dag.

„Hvað sjálfan mig varðar þá finnst mér að nú sé rétti tíminn að skoða vel í kringum mig og velja vel hvað ég geri næst en mér fannst heiðarlegast að láta Leikni vita hvar hugur minn lægi frekar en að vera draga þá á svörum, það skiptir mig máli að koma heiðarlega fram."

Íþróttafélagið Leiknir þakkar Degi kærlega fyrir árin þrjú og framlag hans til klúbbsins á þeim tíma. Hann er ávallt velkominn í Breiðholtið. 

#StoltBreiðholts