Dagur Ingi til Leiknis og Kári Steinn framlengir
Undirbúningstímabilið er hafið hjá Leikni, liðið er farið að spila fyrstu leiki vetrarins og það eru fréttir af leikmannamarkaðinum.
Framherjinn Dagur Ingi Hammer Gunnarsson mun spila í Breiðholtinu og hefur skrifað undir tveggja ára samning. Hann kemur til liðsins frá Grindavík þar sem hann skoraði 10 mörk í deildinni á nýliðnu tímabili, þar á meðal í báðum leikjunum gegn Leikni. Samtals hefur Dagur spilað 107 deildarleiki í meistaraflokki og skorað í þeim 31 mark.
Kári Steinn Hlífarsson kom til liðsins síðasta sumar frá Aftureldingu. Hann hefur skrifað undir framlengingu á sínum samningi út árið 2026. Hann kom vel inn í liðið, spilaði 8 leiki frá því hann kom í Breiðholtið í júlí og skoraði eitt mark í þeim. Samtals á hann 81 deildarleik í meistaraflokki þar sem hann hefur skorað 14 mörk.
Við vonum að allt Leiknisfólk hafi það gott í aðdraganda jólanna og minnum á að það er hægt að skella sér á Leiknisleik sem hluta af jólaundirbúningnum. Laugardaginn 7. desember mætast Leiknir og ÍR á Leiknisvelli og 14. desember koma Þróttarar í heimsókn í Breiðholtið. Leikurinn gegn ÍR hefst klukkan 11:00 og leikurinn gegn Þrótti byrjar klukkan 12:00.