Fram 3-2 Leiknir
Það verður ekkert Bikarævintýri þetta árið fyrir Leiknisfólk eftir tap í framlengdum leik í Safamýrinni í dag.
Það var blíðviðri á þessum gamalgróna heimavelli Framara og góð mæting í stúkuna, báðum megin.
Eins og flest önnur lið sem spila mikið þessa dagana, var mikið um breytingar á byrjunarliði Leiknis. Sindri, Daði, Árni, Jonni og Mikkel Jakobsen komu inn í byrjunarliðið en mynstrið var svipað og í síðustu leikjum. Framarar róteruðu sínu liði líka töluvert og vantaði t.d. Fred sem var feyknasterkur á Domusnovavellinum um daginn.
Liðið okkar byrjaði leikinn með "lélega orku" eins og Siggi orðaði það í viðtali eftir leikinn og 4. leikinn í röð voru þeir lentir undir áður en 12 mínútur voru liðnar af leiknum. Mikkel Dahl þurfti svo að yfirgefa völlinn á 28. mínútu vegna meiðsla og lítur því út fyrir að hann sé ekki ennþá kominn í það líkamlega form sem hann þarf til að geta sýnt okkur sínar fallegustu Færeyjahliðar. Ekki voru stuðningsmenn upplitsdjarfir þegar heimamenn tvöfölduðu forrystuna snemma seinni hálfleiks og engin fordæmi fyrir því að Leiknir skori oftar en einu sinni í leik í sumar.
Á 62. mínútu kom Kristófur Konráðsson inná í fyrsta sinn fyrir Leikni en hann er lánsmaður frá Stjörnunni sem lenti á Íslandi eftir nám í Bandaríkjunum í gær eða hinn. Hann kom inn sem ferskur vindur á völlinn og átti eftir að reyna oftar en einu sinni á Stefán Þór í marki Framara. Hann á eftir að nýtast hópnum vel í baráttunni það sem eftir lifir sumars.
Mikkel Jakobsen kveikti svo neista í liðinu með því að dúndra boltanum í netið á nærstöng úr aukaspyrnu á 66. mínútu. Það er ekki orðum ofaukið að uppfrá því var allt annað Leiknislið á vellinum og bagalegt að þetta andlit sýni sig ekki fyrr en menn hafa engu lengur að tapa. Mikill þungi var á vörn heimamanna og uppskárum við víti eftir að Alex Freyr varði gott skot Sindra með höndunum á marklínunni á 71. mínútu og leit rauða spjaldið að launum. Emil Berger jarðaði vítið af fullkomnu öryggi og ljóst að nú voru heimamenn á köðlunum.
En því miður tókst okkar mönnum ekki að rota gestgjafana í framhaldinu og sigldi leikurinn skemmtilega inn í framlenginguna sem hvorugt liðið hafði efni á að spila með mjög mikilvæga leiki framundan um helgina. Í framlengingunni höfðu heimamenn betur með skallamarki sem kom á 103. mínútu frá Jannik Holmgaard. Hann var algerlega óvaldaður milli Dags og Gyrðis og eftirleikurinn var auðveldur. Á vellinum virtist þetta vera augljós rangstaða en við frekari athugun með hjálp sjónvarpsvéla RÚV er mjög erfitt að segja að það hafi verið vafalaust og því við litlu að kvarta.
Við bíðum því enn eftir fyrsta sigri sumarsins og hann kemur nú staðfest ekki í Mjólkurbikarnum. Gamla tuggan um að við getum þá einbeitt okkur að deildinni er því virkjuð undir eins og ekki veitir af því ógnarsterkur andstæðingur mætir á Domusnovavöllinn á sunnudagskvöld, tilbúinn að klára fyrsta þriðjung tímabilsins með fullt hús stiga fyrir tæplega þriggja vikna landsleikjapásu. Verkefni okkar manna verður að mæta þeim tilbúnir frá byrjun leiks og sýna þeim og öllum í deildinni að það er ástríða í mönnum sem þeir fá að finna fyrir þegar deildin heldur svo áfram í seinni hluta júní.
Að venju verður flott dagskrá á leikdegi. Partýtjaldið verður opið með góðum veigum og fótboltaslögurum á fóninum. Siggi mætir með sitt töflusession klukkan 17:50 og við vígjum Boom Boom Boom, Eyjó Tómasson inn í HOF Leiknis á þessum fína degi. Hverfið kallar kæra Leiknisfólk. Við megum engan missa í þessari baráttu. Það er gaman að koma á völlinn, þefa af grasinu og grillinu og hitta góða félaga.
Sjáumst á sunnudag!
Skýrsla .net
#StoltBreiðholts