Fréttir af leikmannamálum
Félagaskiptaglugganum var lokað í vikunni og voru nokkrar hreyfingar tengdar Leikni.
Andi Hoti (á mynd) var lánaður í Þrótt en þessi 17 ára leikmaður er mikið efni og á bjarta framtíð en hann hefur verið að æfa með yngri landsliðum Íslands. Vonandi fær hann góða reynslu með Þrótturum í Lengjudeildinni.
Sóknarmaðurinn Viktor Marel Kjærnested fékk félagaskipti úr Leikni yfir í Hvíta Riddarann í Mosfellsbæ. Viktor lék fimm leiki með Leikni á Íslandsmótinu 2019 en í fyrra lék hann með Ægi í Þorlákshöfn á lánssamningi.
Markvörðurinn Eyjólfur Tómasson, fyrrum fyrirliði Leiknis, fékk skipti yfir í KB, varaliðið okkar. Það er því aldrei að vita nema hanskarnir fari úr hillunni og hann taki einhverja leiki með KB í 4. deildinni.
Þá má svo geta þess að hollenski vængmaðurinn Dylan Chiazor er farinn af landinu. Dylan kom til Leiknis um mitt sumar í fyrra og lék sjö leiki í Lengjudeildinni. Hann mætti svo aftur til okkar í vetur og æfði til reynslu en á endanum var ákveðið að semja ekki við hann áfram.
Leiknir óskar öllum þessum sómadrengjum góðs gengis í framtíðinni!