Fara á efnissvæði
IS EN PL
Egillingibenediktssonjuli2024
Fréttir | 18.07.2024

Fyrsta meistaraflokksmarkið hjá Agli Inga

Njarðvík 3:2 Leiknir

Rafholtsvöllurinn í Njarðvík, fimmtudaginn 18. júlí 2024.

13. umferð í Lengjudeildinni. Dómari: Helgi Mikael Jónasson.

Mörk Leiknis:

5' - Omar Sowe

83' - Egill Ingi Benediktsson

 

Omar Sowe var meiddur í síðasta leik gegn Fjölni og hans var sárt saknað í þeim leik. Hann var ekki lengi að minna á sig í þessum leik því hann kom Leikni yfir á fimmtu mínútu leiksins. Þá nýtti hann hraða sinn og fimi vel þegar hann fékk stungusendingu inn fyrir vörn Njarðvíkur, lék á markvörð heimamanna og skoraði.

Í hálfleik kom hinn ungi og efnilegi Egill Ingi Benediktsson inn á í sínum fyrsta deildarleik fyrir meistaraflokk Leiknis. Áður hafði hann aðeins spilað þrjá deildarbikarleiki fyrir meistaraflokkinn en á marga leiki fyrir yngri flokka Leiknis. Egill Ingi er fæddur 2008 og þurfti ekki langan tíma til að setja mark sitt á leik Leiknisliðsins. Hann skoraði eftir flotta fyrirgjöf frá Róberti Quental, öðrum ungum leikmanni, þegar sjö mínútur voru eftir af leiknum.

Á milli marka Omars og Egils hafði Dominik Radic skorað þrennu fyrir Njarðvík og komið þeim í vænlega stöðu. Leikmenn Leiknis sóttu mikið undir lok leiksins, sérstaklega eftir markið frá Agli Inga, en náðu ekki að jafna leikinn. Með sóknarleik og vinnusemi eins og liðið sýndi, sér í lagi eftir því sem leið á leikinn, þá fara stigin án efa að detta inn hjá Leikni.

Næst er risaleikur í Breiðholtinu þegar Leiknir heimsækir nágrannana í ÍR í næstu viku.

 

Umfjöllun um leikinn á Fótbolta.net

Viðtal við Ólaf Hrannar eftir leik

 

Byrjunarlið Leiknis gegn Njarðvík:

1 - Viktor Freyr Sigurðsson

5 - Daði Bærings Halldórsson (fyrirliði)

6 - Andi Hoti

7 - Róbert Quental Árnason

8 - Sindri Björnsson

10 - Shkelzen Veseli

19 - Jón Hrafn Barkarson

20 - Hjalti Sigurðsson

23 - Arnór Ingi Kristinsson

44 - Aron Einarsson

67 - Omar Sowe

 

Varamenn:

22 - Þorsteinn Emil Jónsson (inn á 35' fyrir Jón Hrafn)

21 - Egill Ingi Benediktsson (inn á 46' fyrir Shkelzen)

88 - Stefan Bilic (inn á 77' fyrir Omar)