
Fyrsti heimaleikurinn á þessu tímabili
Leiknir gerði jafntefli við Þrótt í opnunarleik Lengjudeildarinnar árið 2025. Nú er komið að fyrsta heimaleiknum þegar Siggi Höskulds mætir aftur heim með Þórsliðið sitt frá Akureyri. Leikurinn hefst klukkan 18:00 föstudaginn 9. maí, dómari leiksins verður Gunnar Freyr Róbertsson. Hægt er að kaupa miða á Stubbi.
Það var Axel Freyr Harðarson sem skoraði fyrsta mark Leiknis á þessu tímabili og tryggði Leikni eitt stig í Laugardalnum. Áður hafði Aron Snær Ingason komið heimamönnum yfir í byrjun leiks. Óli Hrannar þjálfari mætti í viðtal eftir leik og talaði þar um stöðubaráttu leiksins, markmið liðsins að gera betur en spár segja og markmannskapalinn við Fram.
Þór gerði einnig jafntefli í sínum fyrsta leik í Lengjudeildinni. Norðanmenn fengu þá HK í heimsókn í Bogann og endaði leikurinn 1:1. Dagur Orri Garðarsson kom HK yfir en Ibrahima Balde jafnaði metin í uppbótartíma fyrri hálfleiks.
Í spá þjálfara og fyrirliða Lengjudeildarinnar fyrir tímabilið var Þór spáð 5. sætinu og sæti í umspilinu. Leikni var sem fyrr segir spáð 9. sætinu í þeirri spá.
Leiknir og Þór hafa 41 sinni mæst í meistaraflokki karla. Fyrsta viðureignin fór fram 19. júní 1995 í Mjólkurbikarnum. Staðan var 1:1 eftir venjulegan leiktíma og framlengingu en Þór vann 2:3 í vítakeppni. Ári seinna mættust liðin aftur í bikarnum, í það skiptið vann Þór 1:3 sigur. Báðir fyrstu leikir liðanna fóru fram í Breiðholtinu.
Af þessum 41 leik hefur Leiknir sigrað 8 þeirra, Þór 21 og 12 hafa endað með jafntefli. Markatalan í þessum leikjum er 54:82.
Leiknir vann báða leiki liðanna í fyrra. Fyrri leikurinn fór fram 22. júní á Akureyri og endaði með 1:2 sigri Leiknis. Omar Sowe og Shkelzen Veseli skoruðu fyrir Leikni en Birkir Heimisson hafði jafnað metin á milli Leiknismarkanna. Seinni leikur sumarsins fór fram í Breiðholtsblíðunni 24. ágúst, á sjálfa Menningarnótt. Shkelzen Veseli og Róbert Quental skoruðu þá tvö mörk hvor og Róbert Hauksson eitt mark í 5:1 sigri. Sigfús Fannar Gunnarsson skoraði eina mark gestanna.
Bæði lið koma sjálfsagt inn í þennan leik staðráðin í að ná í fyrsta sigur sumarsins. Við hvetjum Leiknisfólk til að fjölmenna á völlinn, styðja strákana og hjálpa þeim í því verkefni.
Áfram Leiknir!