Fara á efnissvæði
IS EN PL
HOF Leiknis 2 4
Fréttir | 24.04.2022

Haukur og Valur Gunnarssynir vígðir í Heiðurshöll Leiknis

Fyrir leikinn í dag voru bræðurnir Haukur og Valur Gunnarssynir vígðir inn í Heiðurshöll Leiknis. Þeir eru fyrstir þangað inn og verður nýr meðlimur vígður inn á hverjum heimaleik í sumar með því að festa upp mynd af viðkomandi í samkomusal félagsins.

Bræðurnir eru óumdeilanlega vel að heiðrinum komnir. Samanlagt hafa þeir spilað 379 KSÍ leiki fyrir Leikni og KB en þeir hafa einnig verið ómetanlegir félagsmenn alla sína tíð.

Haukur var fyrirliði Leiknis til margra ára en í dag festir hann minningar félagsins á filmu og deilir með umheiminum með því að mæta á velflesta leiki og taka ljósmyndir. Þar meðtaldar velflestar myndir sem birtast hér á heimasíðu félagsins og samfélagsmiðlum. Fjölskylda hans sér svo um reksturinn á sjoppunni á leikdögum og margt fleira. 

Valur er mörgum kunnugur sem markmannsþjálfari félagsins síðustu ár. Faðir þessara heiðursmanna þekkja svo eldri Leiknismenn vel en Gunnar "Góði" Hauksson, eins og hann var kallaður, var á eigin forsendum goðsögn á Leiknissvæðinu og hljóp undir bagga með hvað sem þurfti að gera hjá félaginu á sínum tíma. Hann lést árið 2009 en slæst nú í för með sonum sínum á mynd á veggnum góða í Austurbergi 1 og er því kominn í Leiknishúsið aftur með hlýtt bros sitt til allrar framtíðar.

Þeir Haukur og Valur settust niður í spjall í Leiknisljónavarpinu um helgina af þessu tilefni og fóru yfir tíma sinn hjá félaginu, uppeldið og margt annað. Það er komið út á öllum helstu hlaðvarpsveitum og auðvitað líka á heimasíðu Leiknisljónanna hér

Félagið þakkar þessum heiðursmönnum fyrir öll þeirra störf og fórnir sem þeir og fjölskyldur þeirra hafa fært fyrir félagið í gegnum tíðina og óskar þeim á sama tíma innilega til hamingju með að vera fyrstu menn í Hofið (Hall of Fame) félagsins. 

#StoltBreiðholts

#HOF