Fara á efnissvæði
IS EN PL
Heidursteymid
Fréttir | 21.05.2023

Heiðursmerki KSÍ veitt ómetanlegu Leiknisfólki

Á 50 ára afmælisdegi félagsins, þann 17. maí síðastliðinn, veitti KSÍ myndarlegum hópi Leiknisfólks Gull- og Silfurmerki félagsins fyrir framúrskarandi störf í þágu knattspyrnuhreyfingarinnar og þá aðallega fyrir hönd okkar ástkæra íþróttafélags. Tilnefningar til svona viðurkenninga koma frá félögunum sjálfum og í ljósi þess að Leiknir hefur ekki stundað þetta reglubundið var tækifærið nýtt til að heiðra góðan hóp í tilefni af stórafmælinu.

SILFURMERKI KSÍ: 

Silfurmerki KSÍ er veitt þeim sem unnið hafa vel og dyggilega að eflingu knattspyrnuíþróttarinnar í áratug eða lengur og fengu 8 manns þessa viðurkenningu á afmælinu. Þeir Haukur og Valur Gunnarssynir og Eyjólfur Tómasson hlutu þessa viðurkenningu ekki síst fyrir afrek sín sem nokkrir leikjahæstu leikmenn meistaraflokks eftir að hafa farið upp allt yngriflokkastarf félagsins en þeir hafa einnig sinnt hinum ýmsu sjálfboðastörfum innan félagsins og Valur hefur auðvitað verið í þjálfarateymi meistaraflokks síðustu ár. 

Þá voru aðrir 5 manns heiðraðir með sama merki fyrir ötult starf í þágu félagsins eftir að hafa æft upp alla flokka og svo klæðst sjálfboðaliðavestum þegar skórnir fóru á hilluna. Þetta er fólk sem keyrir rúturnar, flaggar fánunum og gengur í allt sem er ómetanlegt fyrir félagið, ár eftir ár eftir ár. Allir með yfir 20 ár sem grjótharðir Leiknismenn í öllum hlutverkum sem hægt er að hugsa sér. Þetta eru þeir Davíð Jónsson, Guðjón Ingason, Garðar Ásgeirsson, Thorvald B. Sörensen og Birgir Ólafsson. Eru þeir svo sannarlega vel að heiðrinum komnir og frábær fyrirmynd fyrir annað Leiknisfólk til framtíðar. 

 

GULLMERKI KSÍ: 

Gullmerkishafar KSÍ eru skilgreindir sem aðeins þeir sem unnið hafa knattspyrnuíþróttinni langvarandi og þýðingarmikil störf. Það var tilfinningarþrungin en jafnframt gleðileg stund er þetta fólk var sæmt þessu merki í nafni félagsins. 

Hér að neðan fer listi þeirra 12 sem sæmdir voru Gullmerkinu á miðvikudag, með rökstuðningi og svo má lýsingu af broti þess starf sem hefur gert þetta fólk að ómetanlegum fjársjóði í sögu félagsins: 

Alfreð Alfreðsson
Rauða ljónið hefur starfað fyrir félagið í rúmlega 30 ár og verið góður og gildur þegn þess. Hann hefur
setið í stjórn félagsins margoft og hefur einnig verið formaður. Löngu er orðið tímabært að heiðra Alfreð
fyrir störf hans fyrir félagið.


Arnar Einarsson
Fyrrum formaður félagsins og var einn af þeim sem kom að því að bjarga félaginu frá gjaldþroti í kringum
aldamótin. Var formaður í meira en áratug.


Guðmundur Birgisson
Fyrrum formaður, gjaldkeri og stjórnarmaður félagsins. Fáir sem hafa verið jafn lengi í stjórn félagsins og
hann. Guðmundur var gjaldkeri unglingaráðs frá 1995 og tekur sæti í nýrri aðalstjórn félagsins
1999/2000 og var í stjórn félagsins í um 23 ár, lengst af sem gjaldkeri aðalstjórnar og formaður. 


Ellen Klara Eyjólfsdóttir
Starfaði og var í stjórn félagsins og kom að því að bjarga félaginu frá gjaldþroti. Kom inn í stjórn
unglingaráðs 1995, en sú stjórn breyttist í aðalstjórn 1999/2000 þegar félagið varð án aðalstjórnar og
gjaldþrot blasti við,  og verkefnið var að bjarga Leikni frá gjaldþroti. Ellen var stjórnarmaður  í 16 ár.


Björk Þorgeirsdóttir
Starfaði og var í stjórn félagsins og kom að því að bjarga félaginu frá gjaldþroti. Var hluti af
unglingaráðinu 1995 og var í  nýrri stjórn aðalstjórnar  1999/2000. Björk var í aðalstjórn félagsins yfir
áratug. 


Magnús Eggertsson
Er einn af þeim mönnum sem kom að félaginu þegar það voru mjög fáir sem störfuðu þar. Gekk í öll störf
og var meðal annas þjálfari hjá félaginu til margra ára. Það er mönnum eins og Magnúsi að þakka að
félagið sé ennþá starfandi og lagðist ekki af í kringum 1985.


Ólafur Garðarsson
Einn ötulasti sjálfboðaliði í sögu félagsins, það er varla hægt að snerta þann flöt sem Ólafur hefur ekki
komið að hjá félaginu. Einn sá fróðasti um sögu félagsins og hefur næstum því verið viðloðandi félagið
frá stofnun þess.


Gísli Friðrik Hauksson
Einn ötulasti sjálfboðaliði í sögu félagsins, það er varla hægt að snerta þann flöt sem Gísli hefur ekki
komið að hjá félaginu. Hefur komið að sjórnunarstörfum og hefur verið liðsstjóri hjá félaginu í næstum
því 15 ár.

Bjarni Björnsson
Einn ötulasti sjálfboðaliði í sögu félagsins, það er varla hægt að snerta þann flöt sem Bjarni hefur ekki
komið að hjá félaginu. Hefur komið að sjórnunarstörfum og hefur ávallt verið reiðubúinn að veita
hjálparhönd þegar hann hefur verið beðinn um eitthvað. Vanalega fyrstur til að mæta og hjálpa til. Bjarni
hefur verið í kringum félagið í rúm 30 ár.


Guðný Sævinsdóttir
Komið að stjórn félagsins, bæði aðalstjórn sem og unglingaráði. Hefur séð um alls konar uppákomur hjá
félaginu og stofnað til margra viðburða og má þar m.a. nefna 17. júní hátíðina sem er orðinn árlegur
viðburður. Eins hefur hún verið ein sú duglegasta að reyna að rífa upp kvennaknattspyrnuna hjá félaginu.


Þórir Þórisson
Hefur verið í stjórn félagsins sem og unglingaráðum. Hefur starfað fyrir félagið í rúm 30 ár sem
sjálfboðaliði og er ávallt reiðubúinn til að leggja til hjálparhönd þegar á hefur þurft að halda. 

Oscar Clausen
Núverandi formaður félagsins en hefur unnið ýmis störf í þágu félgasins í yfir 20 ár og sem formaður núverandi stjórnar var hann ekki tilnefndur af félaginu sjálfu en stjórn KSÍ þurfti ekki mörgum blöðum um það að fletta hvort hann væri þess verðugur að bætast í þennan glæsilega hóp eldhuga sem brenna fyrir Íþróttafélagið Leikni. 

Við óskum að sjálfsögðu öllu þessu fólki til hamingju við þessa löngutímabæru viðurkenningu. Það er ekki ofsögum sagt að félagið okkar væri ekki til ef ekki væri fyrir tilstilli þessa fólks.

#StoltBreiðholts