Heimaleikur á föstudagskvöldi
Eftir svekkjandi tap gegn Gróttu í síðustu umferð er komið að alvöru slag í Breiðholtinu þegar Leiknir tekur á móti Aftureldingu í fimmtu umferð Lengjudeildarinnar. Bæði lið eru neðar en þau vilja vera og það verður hart barist um stigin í þessum leik. Leikurinn á Domusnovavellinum hefst klukkan 19:15 föstudaginn 31. maí. Klárum maí með stæl og tökum gleðina með okkur inn í júní.
Liðin voru í toppbaráttunni á síðasta tímabili og stefna þangað aftur í ár en eru sem stendur í 10. og 11. sæti deildarinnar. Leiknir er með 3 stig og markatöluna 5:7 en Afturelding er með 2 stig og markatöluna 4:9.
Afturelding hefur gert 1:1 jafntefli í báðum heimaleikjum sínum, gegn Gróttu í fyrstu umferð og gegn Grindavík í fjórðu umferð. Á milli þeirra leikja komu tveir tapleikir á útivelli, fyrst 4:2 tap fyrir Þór á Akureyri og síðan 3:0 tap gegn Keflavík í Keflavík.
Andri Freyr Jónasson, Elmar Kári Cogic og Georg Bjarnason hafa skorað eitt mark hver fyrir Aftureldingu auk þess sem þeir hafa fengið eitt sjálfsmark frá andstæðingum sínum.
Þetta eru lið sem þekkja hvort annað mjög vel, þau mættust fjórum sinnum í fyrra og eru þegar búin að mætast tvisvar á þessu ári. Í þessum sex leikjum á tveimur árum er mikið jafnvægi þar sem bæði lið hafa sigrað tvo leiki og tveir endað með jafntefli. 23 mörk voru skoruð í þessum sex leikjum svo það er alveg líklegt að við fáum annan markaleik, vonandi með skemmtilegri úrslitum í þetta skiptið.
Fyrsti leikur Leiknis gegn Aftureldingu var í júní 1987 þegar liðin mættust í Mjólkurbikarnum á Leiknisvelli. Þar var um hörkuleik að ræða sem endaði með 3:2 sigri Leiknis eftir framlengdan leik. DV skrifaði um leikinn daginn eftir:
„Hörkurimma var milli Leiknis og Aftureldingar. Læti voru umtalsverð á vellinum og harka, sáu tveir rautt áður en yfir lauk.
Viðureignin var raunar framlengd því staðan var 2-2 eftir hefðbundinn leiktíma. Sigurmarkið gerði Atli Þorvaldsson fyrir Leikni en áður höfðu þeir Baldur Baldursson og Ragnar Ragnarsson skorað fyrir félagið.“
Síðan þá hafa félögin verið saman í C-deild og B-deild en eiga enn eftir að prófa að vera saman í efstu deild. Styttist vonandi í þá reynslu. Alls hafa þessi lið mæst 24 sinnum. Leiknir hefur sigrað 12 leiki, Afturelding á 7 sigra og 5 leikir hafa endað með jafntefli. Liðin eru gjörn á að reima á sig markaskóna fyrir þessar viðureignir og er markatalan í þessum leikjum 49:42, Leikni í hag.
Minnum á miðasöluna á Stubbi, afsláttur í forsölu.
Í vefverslun Leiknis er auk þess hægt að kaupa skemmtilegan varning, til dæmis flottar derhúfur með merki félagsins.