Heimaleikur gegn Grindavík
Eftir viðburðaríka daga hjá Leikni er komið að næsta heimaleik þegar Grindavík mætir í Breiðholtið. Leikurinn hefst klukkan 14:00, laugardaginn 15. júní. Liðið þarf svo sannarlega á stuðningi og hvatningu að halda fyrir þetta verkefni. Mætum öll á völlinn og gefum strákunum orkuinnspýtingu í Lengjudeildarbaráttunni. Við minnum á að það er afsláttur af miðum á leikinn ef þeir eru keyptir á Stubbi fyrir leikdag.
Leiknir er í 12. sæti deildarinnar með 3 stig eftir 6 leiki. Markatalan er 5:13 þar sem Omar Sowe hefur skorað 2 mörk, Róbert Hauksson og Róbert Quental eitt mark hvor og eitt mark var sjálfsmark.
Grindavík er í 11. sæti deildarinnar með 4 stig eftir 5 leiki. Markatalan í þessum 5 leikjum er 8:9. Grindavík tapaði fyrsta leiknum 2:3 gegn Fjölni en hefur síðan gert fjögur jafntefli í röð:
1:1 gegn ÍR heima
2:2 gegn Gróttu heima
1:1 gegn Aftureldingu úti
2:2 gegn Keflavík heima
Grindavík átti að mæta Þór á Akureyri í sjöttu umferð í byrjun júní en þeim leik var frestað vegna þess að tveir leikmenn Grindavíkur voru að taka þátt í landsliðsverkefnum á sama tíma. Það voru þeir Eric Vales (Andorra) og Nuno Malheiro (Saó Tóme og Prinsípe).
Eric Vales var í byrjunarliði Andorra sem mætti Spánverjum í vináttuleik á Estadio Nuevo Vivero í Badajoz á Spáni 5. júní. Honum var skipt út af í hálfleik, í stöðunni 1:0 fyrir Spáni, fyrir Marc Vales. Það fór ekki vel í Andorraliðið sem endaði á að tapa 5:0. Eric var aftur mættur í byrjunarlið Andorra 11. júní í vináttuleik gegn Norður-Írlandi. Hann spilaði allan þann leik í vörninni í 2:0 tapi.
Nuno Malheiro tók þátt í verkefni í undankeppninni fyrir HM 2024. Fyrst fór Saó Tóme og Prinsípe til Malaví. Malheiro var í byrjunarliðinu í vörninni en eftir að heimamenn voru komnir í 2:0 á fyrsta korterinu var Malheiro tekinn af velli á 40. mínútu. Malaví endaði á að vinna leikinn 3:1. Malheiro var ekki í byrjunarliðinu í seinni leiknum, á heimavelli gegn Líberíu 9. júní en hann kom inn á í uppbótartíma í lok leiks sem gestirnir frá Líberíu unnu með einu marki gegn engu.
Grindavík hefur skorað 1-2 mörk í öllum leikjum til þessa. Markahæsti leikmaður liðsins er Dagur Ingi Hammer Gunnarsson sem hefur skorað 3 mörk. Kwame Quee hefur skorað 2 og þeir Kristófer Konráðsson, Sigurjón Rúnarsson og Símon Logi Thasaphong eru með eitt mark hver.
Leiknir og Grindavík voru saman í Lengjudeildinni í fyrra. Fyrri leikur liðanna var þá í Breiðholtinu 10. júní. Marko Vardic og Edi Horvat komu Grindvíkingum í 0:2 en Omar Sowe og Róbert Hauksson náðu að jafna metin, 2:2 var lokastaðan í þeim leik. Seinni leikurinn var spilaður á Stakkavíkurvelli í Grindavík 16. ágúst, þá skoraði Símon Logi Thasapong eina mark leiksins á 21. mínútu.
Fyrsti leikur þessara liða var spilaður á Leiknisvelli í 3. umferð Coca-Cola bikarsins 13. júní 2001. Róbert Arnarson skoraði þá fyrir Leikni undir lok leiks en áður höfðu Paul McShane, Sinisa Kekic, Grétar Ólafur Hjartarson og Óli Stefán Flóventsson skorað fyrir Grindavík.
Alls hafa liðin mæst 15 sinnum áður í meistaraflokk karla. Leiknir á tvo sigra, Grindavík hefur unnið níu leiki og fjórir hafa endað með jafntefli. Markatalan í þessum 15 leikjum er 18:35, Grindavík í hag.
Þetta er öflugt lið sem mætir á Domusnovavöllinn á þennan laugardagsleik í Lengjudeildinni. Við viljum ítreka hvatninguna til Leiknisfólks að mæta á völlinn og sýna okkar strákum þann stuðning sem þeir eiga skilið. Áfram Leiknir!
Miðasalan er á Stubbi, sjá hérna.
Á vefverslun Leiknis má líka kaupa skemmtilegan Leiknisvarning. Skellið ykkur í réttu litina!