Fara á efnissvæði
IS EN PL
Leiknir Throttur2024
Fréttir | 16.07.2025

Heimaleikur gegn Þrótti

Þetta tímabil hófst á jafnteflisleik í Laugardalnum þegar Leiknir heimsótti Þrótt. Nú mæta Þróttararnir í Efra-Breiðholtið og það er mikið undir hjá okkar mönnum. Leikurinn á Domusnovavellinum hefst klukkan 19:15 föstudaginn 18. júlí. Mætum sem flest og styðjum liðið til sigurs, hægt er að kaupa miða hérna á Stubbi.

Axel Freyr Harðarson skoraði fyrsta mark Leiknis í Lengjudeildinni á þessu tímabili þegar hann jafnaði metin í upphafi seinni hálfleiks gegn Þrótti 2. maí síðastliðinn. Áður hafði Aron Snær Ingason komið Þrótturum yfir á fjórðu mínútu leiksins. Þannig sat og liðin skiptu stigunum jafnt á milli sín.

Síðan þá hefur Þrótturum gengi nokkuð vel og eru þeir nú í fjórða sæti deildarinnar með 21 stig og markatöluna 23:20. Þróttur vann Keflavík 3:2 á heimavelli í síðustu umferð og var það annar sigur liðsins gegn Keflavík í sumar. Að auki hefur Þróttur unnið Fylki, Völsung, Selfoss og Þór en gert jafntefli við Leikni, Njarðvík og HK. Markahæstu leikmenn Þróttar í deildinni eru fyrrnefndur Aron Snær Ingason og Liam Daði Jeffs sem báðir hafa skorað fimm mörk. Á eftir þeim koma Jakob Gunnar Sigurðsson með 4 mörk, Eiríkur Þorsteinsson Blöndal með 3 mörk og síðan hafa Kári Kristjánsson og Vilhjálmur Kaldal Sigurðsson skorað tvö mörk hvor.

Leiknir er í 12. sæti deildarinnar sem er ekki gott en sem betur fer er nóg af leikjum eftir ennþá til að breyta þeirri stöðu. Liðið hefur fengið 9 stig í 12 leikjum og er með markatöluna 12:27. Markahæsti leikmaður Leiknis í sumar er Dagur Ingi Hammer Gunnarsson með sex mörk. Shkelzen Veseli kemur á eftir honum með tvö mörk.

Nú eru tíu umferðir eftir af deildinni og nóg af stigum enn í pottinum. Við hvetjum fólk til að mæta á völlinn, höfum trú á þessu liði og verkefninu framundan.

 

Áfram Leiknir!

Stolt Breiðholts.