Heimsókn til Húsavíkur
Það var Patryk Hryniewicki sem steig upp á lokasekúndum síðasta leiks og tryggði Leikni 1:0 sigur á Fylki í Breiðholtinu í 17. umferð Lengjudeildarinnar, miðvikudaginn 13. ágúst. Áður hafði markvörðurinn Óli Íshólm staðið sig frábærlega hinum megin á vellinum og varið hvert skotið á fætur öðru. Þessi þrjú Leiknisstig í bland við úrslit í öðrum leikjum þýddi að Leiknir færði sig úr 12. sæti upp í 10. sæti, einu stigi á undan Fjölni.
Leiknir er með 13 stig. Fyrir ofan liðið er Selfoss með 16 stig, Grindavík með 17 stig og næstu mótherjar Leiknis koma þar fyrir ofan, Völsungur í 7. sæti með 19 stig. Völsungur hefur unnið 5 leiki, gert 4 jafntefli og tapað 8 leikjum. Markatala liðsins er 29:38 þar sem Jakob Héðinn Róbertsson er markahæstur með 8 mörk, Elfar Árni Aðalsteinsson hefur skorað 6 mörk, Arnar Pálmi Kristjánsson 4 mörk, Ismael Salmi Yagoub 3 mörk, Rafnar Máni Gunnarsson 2 mörk og aðrir markaskorarar eru með eitt mark hver.
Þessi árangur nýliða Völsungs er framar væntingum fyrir mót því í spá fyrirliða og þjálfara liða í Lengjudeildinni var Völsungi spáð 12. sætinu og ferð beint aftur niður í 2. deildina. En þetta reyndar rímar vel við karakterinn í Völsungsmönnum því þeim var spáð 10. sæti í 2. deildinni í fyrra og enduðu þá í 2. sætinu.
Leiknir og Völsungur mættust í Breiðholtinu í byrjun júní. Þá kom Rafnar Máni Gunnarsson gestunum yfir á 67. mínútu en Shkelzen Veseli og Dagur Ingi Hammer (2) tryggðu Leikni 3:1 sigur. Þessi leikur var fjórtánda viðureign Leiknis og Völsungs. Sú fyrsta var líka leikin á Leiknisvelli en það var í maí 1996, sá leikur endaði með 3:0 sigri Breiðholtsstoltsins. Leiknir vann ellefu af þessum fjórtán leikjum, Völsungur þrjá en liðin hafa ekki enn gert jafntefli. Markatalan í leikjunum fjórtán er 39:24 fyrir Leikni.
Núna eru aðeins fimm leikir eftir af Lengjudeildinni. Það er langt að fara á þennan útivöll en þó vonandi að einhverjir stuðningsmenn Leiknis sjái sér fært að mæta á völlinn og styðja liðið. En síðan er skyldumæting á leikinn eftir þennan því þá verður Breiðholtsslagurinn á Leiknisvellinum, laugardaginn 23. ágúst.
Áfram Leiknir!