ÍA 1-5 Leiknir
Í gær vann Leiknir sinn stærsta sigur á Skagamönnum í sögu félagsins og það á útivelli þegar þeir voru á mikilli siglingu sjálfir. Strákarnir okkar hafa núna unnið 5 leiki í röð og 6 af síðustu 7. Ekki amalegt það.
Það var ljóst frá fyrstu mínútu að Leiknismenn voru mættir til að taka öll 3 stigin og það var Robbi Hauks sem reið á vaðið á 7. mínútu með fyrsta mark leiksins. Omar Sowe bæti við öðru eftir 16 mínútna leik en Viktor Jónsson náði að minnka muninn á 30. mínútu áður en flautað var til hálfleiks.
Í seinni hálfleik tóku Breiðhyltingar öll völd á vellinum og tættu heimamenn í sig hvað eftir annað. Andi Hoti stangaði boltann í netið áður en títtnefndur Omar Sowe fullkomnaði fyrstu þrennu ferils síns. Virkilega skemmtileg ferð á Skipaskaga að þessu sinni og strákarnir hans Fúsa hafa sannarlega sýnt og sannað hversu megnugir þeir eru.
#StoltBreiðholts