
Íþróttahátíð í Breiðholti og síðasti heimaleikur tímabilsins
Það verður blásið til íþróttahátíðar í Breiðholtinu á laugardaginn. Frá hádegi verður hægt að prófa alls konar íþróttir bæði á Leiknissvæðinu og ÍR-svæðinu. Hátíðin verður opin öllum, ókeypis og það verða rútur sem keyra fólk á milli svæðanna. Skemmtidagskrá verður á sviði og þegar dagskrá lýkur þar verður haldið í skrúðgöngu á Leiknisvöllinn til að sjá síðasta heimaleik Leiknis í sumar þar sem allt verður undir í baráttuleik gegn Selfossi. Leikurinn hefst klukkan 16:00 og það verður frítt á völlinn.
Sjá Facebookviðburð íþróttahátíðarinnar hérna. Nánari dagskrá kemur líka fram neðst í þessum pistli.
Leiknir tapaði 1:3 gegn Njarðvík í síðasta leik. Adam Örn Arnarson skoraði mark Leiknis í þeim leik. Í sömu umferð vann Selfoss 3:2 sigur á Þór og komst uppfyrir Leikni í töflunni fyrir þennan leik. Leiknir er í 11. sætinu með 17 stig og markatöluna 20:39 (-19) en Selfoss er í 9. sæti með 19 stig og markatöluna 24:38 (-14). Á milli þessara liða er Grindavík í 10. sætinu með 18 stig og markatöluna 35:57 (-22). Neðstir eru svo Fjölnismenn með 15 stig og markatöluna 30:49 (-19).
Leikirnir sem þessi fjögur lið eiga eftir á tímabilinu eru...
Leiknir:
Selfoss heima
Fjölnir úti
Fjölnir:
Þór úti
Leiknir heima
Grindavík:
ÍR heima
Njarðvík úti
Selfoss:
Leiknir úti
Keflavík heima
Leiknir þarf auðvitað fyrst og fremst að hugsa um þessa tvo leiki sem liðið á eftir og fókusera á að ná í úrslit í þeim. Til þess væri gott að fá aðstoð frá áhorfendum og hvatningu til leikmanna inni á vellinum. Byrjum á laugardagsleiknum og fögnum saman.
Leiknir og Selfoss mættust síðast á Selfossi í lok júní. Sá leikur endaði 2:2 þar sem heimamenn komust í 2:0 en Dagur Ingi Hammer jafnaði með tveimur mörkum á stuttum tíma um miðjan seinni hálfleikinn. Aron Fannar Birgisson skoraði bæði mörk Selfoss í leiknum en þetta eru einmitt markahæstu leikmenn sinna liða á tímabilinu. Dagur Ingi hefur skorað 7 mörk en Aron Fannar 6 mörk.
Aðrir markaskorarar Leiknis eru:
Shkelzen Veseli - 4 mörk
Axel Freyr Harðarson - 2 mörk
Kári Steinn Hlífarsson - 2 mörk
Fimm Leiknismenn hafa skorað 1 mark hver
Aðrir markaskorarar Selfoss á tímabilinu eru:
Aron Lucas Vokes - 4 mörk
Raul Gomez Martorell - 4 mörk
Frosti Brynjólfsson - 3 mörk
Jón Daði Böðvarsson - 3 mörk (í 5 leikjum)
Fjórir Selfyssingar hafa skorað 1 mark hver
Leiknir og Selfoss hafa 47 sinnum mæst í meistaraflokki karla í fótbolta. Leiknir hefur unnið 20 leiki, Selfoss 18 leiki og 9 leikir hafa endað með jafntefli. Markatalan í þessum 47 leikjum er 87:83.
Síðustu leikir Leiknis og Selfoss hafa verið miklir markaleikir, 25 mörk voru skoruð í síðustu fjórum leikjum liðanna.
En hvort sem það verður markaleikur eða ekki á laugardaginn þá viljum við sjá góðan leik okkar manna, góðan stuðning í stúkunni og góð stig til Leiknis.
Áfram Leiknir!
Meira um íþróttahátíðina
Í boði verða m.a.:
Borðtennis og blak og
Sund og dans
Fótbolti og amerískur fótbolti
Karate og taekwondo
Fimleikar og frjálsar íþróttir
Handbolti, körfubolti og hjólastólakörfubolti
Keila
Þátttakendur fá tækifæri til að kynnast íþróttunum á lifandi og skemmtilegan hátt undir leiðsögn íþróttafélaga í hverfinu.
Eftir íþróttagleðina hefst skemmtidagskrá á sviði þar sem boðið verður upp á fjölbreytta afþreyingu:
Emmsjé Gauti
Daniil
Dans Brynju Péturs
DJ Birkir
Skrúðganga og knattspyrnuleikur kl. 15:30
Að lokinni skemmtidagskrá verður skrúðganga frá sviðinu að Leiknisvellinum, þar sem öllum er boðið frítt á knattspyrnuleik Leiknis og Selfoss í Lengjudeild karla. Leikurinn hefst kl. 16:00.
Frítt fyrir öll
Aðgangur að hátíðinni er ókeypis, þátttaka í öllum íþróttum er frí og einnig verður boðið upp á fríar veitingar.
Hátíð fyrir alla
Íþróttahátíðin í Breiðholti er haldin með stuðningi frá Erasmus+ Sports day in the Streets og er hluti af stærra Breiðholtsverkefni sem Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) og Suðurmiðstöð standa að. Markmið verkefnisins er að efla þátttöku barna og ungmenna í íþrótta- og tómstundastarfi, styrkja félagsauð í Breiðholti og auðvelda fólki af erlendum uppruna aðlögun að íslensku samfélagi.