Kótilettukvöld og Leikmannakynning
Stuðningsfólk, leikmenn og starfsmenn Leiknis ætla að þjappa sér saman fyrir komandi tímabil í Bestu deildinni föstudagskvöldið 8.apríl næstkomandi. Meðal annars verður stökkbreyttur leikmannahópur meistaraflokks kynntur til leiks ásamt hefðbundinni ræðu þjálfara fyrir tímabilið og kynningu á metnaðarfullri dagskrá á heimaleikjum í sumar. Leiknisljónin ætla að peppa mannskapinn með ferskum söngvum og ekki má gleyma að það verða gómsætar lambakótilettur með öllu tilheyrandi í boði.
Veislustjórn verður í höndum Draumaliðsmannanna Jóa Skúla og Orra Eiríkssonar en eins og glöggir hlaðvarpshlustendur vita luma þeir á eins og einum eða tveimur gullmolum um Leikni og hafa sigrað íslenska knattspyrnuheiminn með sínum stórskemmtilegu "Svona var sumarið" hlaðvörpum.
Eins og flestir vita hefur efsta deild fengið nýja nafnið Besta deildin og einnig hefur verið bætt við 5 leikjum við leiktímabilið þar sem deildinni er skipt í tvennt eftir þá fyrstu 22. Öll hin 11 liðin í deildinni hafa unnið Íslandsmeistaratitilinn áður. Leiknir er því sannarlega minnsta félagið í deildinni. En við vitum öll að við erum með stærsta hjartað.
Félagið hefur lagt metnað sinn í að taka næsta skref í árangri með því að fá spennandi erlenda leikmenn í fremstu víglínu ásamt því að endurheimta hverfishetjur frá 2015 til baka til félagsins. Það er mikill hugur hér í Austurberginu og vonandi fáum við sem flest ykkar með okkur í verkefnið.
Sjáumst hress og kát á Domusnovavellinum 8.apríl.
Miðaverð er 5.900kr og gleðin hefst 19:00. Það er takmarkaður miðafjöldi í boði. Vinsamlegast pantið miða með því að senda póst á leiknir@leiknir.com
#HverfiðKallar
#StoltBreiðholts