KR 1-1 Leiknir
Flottur seinni hálfleikur á fornfrægum heimavelli KR-inga tryggði okkar mönnum stig í dag í 7. umferða Bestu deildarinnar.
Það var blíðviðri í Vesturbænum í dag og jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar en okkar menn fengu mark á sig á 10. mínútu og misstu þar svolítið tökin á leikplaninu sem var klárlega að liggja aðeins til baka.
Í hálfleik gerði Siggi tvær breytingar á liðinu ofan á að Maciej hafði farið meiddur útaf í fyrri hálfleik. Skemmst er frá því að segja að Leiknir tók yfir leikinn og Mikkel Dahl skoraði sitt fyrsta mark á tímabilinu á 54. mínútu.
Okkar menn áttu fjölmörg færi í viðbót en vantaði lokahnykkinn til að tryggja fyrsta sigur tímabilsins.
Það er einróma álit allra Leiknismanna, fjölmiðla og Rúnars Kristinssonar að KR-ingar voru stálheppnir með stigið á heimavelli í dag.