Fara á efnissvæði
IS EN PL
Screenshot 20221031 211330 (1)
Fréttir | 02.11.2022

Kveðja frá Sigurði Heiðari Höskuldssyni

Eins og flestum var kunnugt fyrir lok tímabils í Bestu deildinni var okkar allra besti þjálfari, Sigurður Heiðar Höskuldsson, á leið frá félaginu að tímabili loknu. Í dag tilkynnti Knattspyrnufélagið Valur að hann sé genginn í þeirra raðir sem aðstoðarmaður Arnars Grétarssonar á Hlíðarenda. Á lokahófi Leiknis á laugardaginn síðasta hélt þessi mikli meistari langa og góða ræðu fyrir félagsmenn þar sem hann kvaddi félagið sem hann hefur lifað fyrir í rúm 4 ár. Þetta var kveðja til allra sem hafa staðið með honum í baráttunni og birtum við hana hér í heild með góðfúslegu leyfi Sigga um leið og félagið þakkar honum á móti fyrir hans framúrskarandi þjónustu við félagið: 

 

"111 – það er hverfið og það er akkúrat fjöldi leikja í keppni sem ég stýrði sem aðalþjálfari Leiknis.

Leiknisfjölskyldan tók mig inn 17. júlí 2018, eða fyrir 1565 dögum síðan.

Gengi liðsins var ekkert sérstakt, en eins og ég hef örugglega sagt 100 sinnum áður að þá var ótrúlega góð ára yfir öllu. Fúsi var frábær og ég fann fyrir einhverri stemningu sem ég hafði ekki fundið fyrir áður neins staðar sem ég hafði verið áður. Það var smá fallbarátta hjá liðinu þetta tímabil en ég mun aldrei gleyma hversu 100% öruggir við Fúsi vorum á því að liðið myndi ekki falla. Á endanum höldum við okkur nokkuð örugglega uppi með 25 stig í 7. sæti. Vinir okkar í JR fóru einmitt eftirminnilega niður það árið.

Fúsi hættir eftir tímabilið. Ég mælti eindregið með því að Stefán Gíslason tæki við, fyrst að Clausen og Helgi Óttarr treystu mér ekki sjálfum fyrir verkefninu alveg strax. Í spjöllum mínum við Stefán í því ferli tjáði ég honum það að ég sæi gríðarlega möguleika í liðinu og klúbbnum. Stefán stökk á vagninn og úr varð frábært samstarf hjá okkur. Tímabilið byrjaði hinsvegar brösulega. 4 töp og 4 sigrar. Stefán seldur út til Belgíu og ég heimtaði að taka við. Í því ferli áttu eftir að eiga sér samningaviðræður við Oscar Clausen sem ég væri til í að eiga á video-i einhversstaðar.

Unnum fyrsta leik í Keflavík í grenjandi rigningu. Í kjölfarið komu tvö töp gegn Fjölni og Fram. Í Framleiknum tók ég minn fyrsta trylling.. af mjög fáum. Í kjölfarið þorði liðið ekki að tapa leik í Íslandsmóti í 361 dag á eftir.

2020 förum við upp, með hjálp frá Covid segja margir. En í sannleika sagt fannst mér við langbestir í deildinni.

Pepsi Max deildin tekur svo við 2021. Spáð 12. sæti af öllum. Með lang lang reynsluminnsta lið deildarinnar í efstu deild og þjálfara sem hafði aldrei komið nálægt deidinni hvorki sem leikmaður né þjálfari. Fjölmargir leikmenn deildarinnar höfðu spilað fleiri leiki í efstu deild heldur en allt Leiknisliðið til samans.

Liðið var frábært. Náðum í nokkur söguleg úrslit. Vinnum Víking, Val og FH á heimavelli t.d. og hársbreidd frá því að vinna Breiðablik. Eftir að vera sloppnir við fall í 16. umferð tekur við erfiður kafli þar sem við bæði spilum frábæra leiki án þess að fá úrslit en líka mjög vonda. Endum með 22 stig í 8. sæti en einungis 18 mörk skoruð. Besti árangur í sögu Leiknis.

Við tekur langt og strangt undirbúningstímabil. Frá tímabilinu á undan höfðum við misst Sævar, Mána, Manga, innan sviga, Sólon og Ágúst Leó og þegar við bætum Danna Finns við sem yfirgefur okkur í byrjun tímabils eru allir leikmenn liðsins á meistaraflokks aldri sem spila á síðasta þriðjung vallarins farnir. 15 af þeim 18 mörkum sem við skoruðum 2021 eru farin. Auk þess höfðum við misst Vuk árið á undan.

Því þurfti að fara á leikmannamarkaðinn. Ég mun aldrei getað talið klukkutímana sem fóru í það að horfa á leiki og tala við misgáfaða umboðsmenn til að finna réttu leikmennina fyrir liðið. Valið þurfti að vera mjög ígrundað og margir leikmenn, á gjörsamlega öllum getustigum,, sem komu til greina og ekki.

En við gerðum ágætlega. Undirbúningstímabilið var frábært. Við skoruðum 68 mörk í rétt rúmlega 20 leikjum. Sóknarleikurinn frábær. Þar af 25 mörk gegn efstu deildar liðum í 10 leikjum. En..

Undirbúningsleikir eru svo sannarlega annar veruleiki en efsta deild í fótbolta.

Eftir 10 leiki erum við með 4 stig og 7 mörk skoruð. Lang verstu færanýtinguna í deildinni og samkvæmt expected points áttum við að vera um miðja deild. Í einfeldni minni gekk ég þó alltaf í átt að vellinum fyrir leik hugsandi: „við erum ALLTAF að fara vinna þennan leik“.

Heilt yfir var tímabilið rússíbanareið. Stór töp, svekkjandi töp, frábærir sigrar, karaktersigrar og allur pakkinn.

Þjálfarastarfið er flókið starf. Mögulega aðeins flóknara hjá félagi eins og Leikni. Þjálfarastarfið er starf sem að allir hafa skoðun á, hvort sem þeir horfa á fótbolta eða ekki. Það eru allir tilbúnir að gagnrýna starfið þitt, bæði í sjónvarpi, útvarpi og á prenti og algjörlega óháð því hvort þeir hafi horft á leikina eða ekki.

En þrátt fyrir að fullt skotleyfi allra á þjálfara, aftur, hvort sem viðkomandi horfði á leikina eða ekki, þá meiga þjálfarar aldrei koma með afsakanir.

Ef leigubílstjóri þarf að svara fyrir lélega næturrvakt getur hann sagt:

Heyrðu.. það ældu 2 í bílinn, eitthvað fífl á Yaris keyrði aftan á mig á Grensásveginum og svo hlupu 2 út án þess að borga.

Þjálfari getur þetta ekki.

Þú vannst ekki leikinn = hinir voru góðir þið voruð lélegir.

Þó svo að tímabilið okkar hafi verið þannig að það ældu 4 í bílinn, 6 hlupu út án þess að borga og það var Strætó sem keyrði í hliðina á okkur á Sæbrautinni að þá má ekki segja það og það er allt í lagi. Þannig er þetta bara. Þegar á botninn er hvolft vorum við ekki nógu góðir til þess að halda okkur uppi. Við endum með 20 stig í 22 leikjum í efstu deild, deild þar sem tveir af sigursælustu þjálfurum Íslandssögunnar voru ekki nægilega góðir þjálfarar til að klára tímabilið. 20 stig sem skilaði okkur fyrir ofan strikið, en svo kom helvítis úrslitakeppnin.  

Fótbolti er tilfinningasport. Að vera í fótboltaliði er tilfinningaþrungið. Að lenda í mótlæti reynir á tilfinningarnar og ég held og trúi að tilfinningabanki liðsins hafi einfaldlega verið orðinn tómur eftir 22 leiki.

Eins og skeggrætt hefur verið um að þá er kvöldið í kvöld mitt síðasta kvöld sem þjálfari Leiknis að sinni. Ég er þakklátur og stoltur. Ég gaf allt sem ég átti í verkefnið. Lífið mitt síðustu 1565 dagana hefur verið Leiknir. Ég er einfaldur maður. Ég hef kastað nokkrum pílum og teflt nokkrar skákir í símanum en annars hefur lífið mitt nánast á allan hátt snúist um Leikni. Fjölskylda mín og vinir með enga tengingu við Leikni er orðið hart Leiknisfólk, ekki útaf mér, heldur félaginu, ykkur, leikmönnunum og þeirri góðu áru sem ég talaði um áðan sem umlykur félagið.

Ég hef reynt að vera heiðarlegur og einlægur og gætt hagsmuna félagsins í öllu sem ég hef gert. Ég hef tekið góðar ákvarðanir og slæmar. Ég hef tamið mér það í þjálfarastarfinu að horfa ekki til baka og velta mér uppúr ákvörðunum. Því á endanum, þegar ákvörðunin var tekin, þá var það rétta ákvörðunin, annars hefði hún ekki verið tekin. Svo eins og í þessum blessaða fótbolta að þá gerist bara eitthvað.

Hvernig sem fólk vill líta á það að þá var ákvörðunin að tilkynna brotthvarfið mitt gert af heiðarleika og með hagsmuni félagsins í fyrirrúmi. Eins og allar mínar ákvarðanir. Fólk má hafa skoðun á því og dæma hvernig sem það vill.

Ég vil enda á því að þakka kærlega fyrir mig.

Þakka Helga Óttarri fyrir að ráða mig til starfa 17. Júlí 2018.

Þakka Fúsa fyrir að taka frábærlega á móti mér og inní teymið mér sér.

Þakka leikmönnunum, vinum mínum, fyrir að hlusta á bullið í mér og stundum öskrin og fara actually eftir því.

Þakka stjórnarfólki, Gæja, Elvari Geir og fleirum fyrir að standa alltaf við bakið á mér og liðinu.

Þakka Gísla Grill og DJ Þóri. Betri manneskjum hef ég held ég aldrei kynnst um ævina og ég gat alltaf treyst á þessa tvo.

Þakka Aroni Fuego og svo Beni fyrir alla hjálpina í kringum liðið.

Þakka Stefáni framkvæmdastjóra fyrir alla hjálpina.

Þakka Donna aðstoðarþjálfaranum mínum fyrir að koma með þann kraft, vinnusemi og þekkingu sem hann kom með í liðið.

Þakka Snorra Villafuerte fyrir ótrúlega óeigingjarna vinnu í þágu félagsins.

Þakka geitinni frá Selfossi, henni Herdísi, fyrir að vera hún. Yndisleg.

Þakka öðrum þjálfurum sem hafa þjálfað á þeim tíma sem ég hef verið hér. Frábær hópur og vinir.

Sérstakar þakkir fær Oscar Clausen. Fáir ef einhver áttar sig á því hversu mikið hann hefur gert fyrir mig og félagið. Hann á þetta allt saman skuldlaust.

Að lokum vil ég þakka Hlyn Helga og Val Gunnarssyni. Stoðir og styttur ná ekki yfir það sem að þeir voru fyrir mig á tíma mínum sem aðalþjálfari Leiknis. 

Það er sárt að falla. Það er sárt að tapa illa. Það er sárt að enda svona. En ég veit að félagið er í frábærum höndum hjá Clausen og co. Það er kjarni hér af frábærum leikmönnum og fjölmörgum ungum leikmönnum að koma upp. Ælurnar fjórar verða þrifnar, beyglan á hliðinni löguð og Leiknir mun lifa mun lengur en Siggi Höskulds.

Takk fyrir mig."