Fara á efnissvæði
IS EN PL
Inshot 20230511 232825870
Fréttir | 12.05.2023

Leikdagur í 111: Mikið um dýrðir

Það er komið að því! Fyrsti í Lengjudeild í Breiðholti á 50 ára afmælisári félagsins. Selfoss mætir í Holtið í annað sinn á einum mánuði og strákarnir okkar ætla að halda áfram öflugri byrjun á tímabilinu. Leikurinn hefst 19:15 en dagskráin eru mikið stærri. Það er alvöru byrjun á helginni í boði í 111.

17:30 í Leiknishúsi munu Davíð Snorri og Freyr Alexandersson deila reynslu sinni og gullaldarliðanna sinna frá 2013-2015 með stundvísum stuðningsmönnum. Sannkölluð Sögustund um einhver stærstu augnablik í sögu félagsins þar sem margir skemmtilegir aðilar koma við sögu. Sannir Leiknismenn vilja ekki missa af þessu. 

Á sama tíma verður tendrað í grillinu og Stolti Borgarinn ríður á vaðið. Alvöru eldgrilluð snilld með ómótstæðilegu kryddi Jóa Núma sem stuðningsmenn geta svo hlaðið uppá að vild en við mælum auðvitað einlægt með Jack Daniels BBQ sósunni og mulda Dorito´s-inu. Kaldur á barnum og við ættum að vera í góðum gír þegar sparkað er í gang. 

Það verður í boði að máta Errea-treyjur í þeim stærðum sem afmælistreyja félagsins verður seld í. 

Árskortin verða að sjálfsögðu til sölu fyrir þá allra hörðustu en þeir fá einmitt forgang í forsölu á áðurnefndu afmælistreyjunni. 

19:15 flautar Guðgeir Einarsson leikinn í gang á Gervigrasinu iðagræna. Selfyssingar koma í heimsókn eftir vonbrigðistap á heimavelli í fyrstu umferð. Okkar menn fleygðu þeim út úr bikarnum á Domusnova í síðustu umferð með síðbúnu marki frá Omar Sowe svo þeir munu vilja snúa gengi sínu við í Breiðholtinu sem snöggvast. Eftir vonbrigðistímabil hjá okkur í fyrra er mikilvægt að viðhalda góðri byrjun á tímabilinu og byggja á því. 

Beint á netinu: 
Þeir sem komast ekki í Breiðholtið á leikinn hafa kost á því að horfa á hann í gegnum YouTube-síðu Lengjudeildarinnar hér. Snorri Valsson býður uppá hlutdrægustu lýsingu sem fyrirfinnst en ef þú situr á sófanum og heiðrar okkur ekki með nærveru þinni á vellinum, væri vel tilfundið að styðja þó félagið um því sem nemur hálfvirði aðgangsmiða á völlinn. Smellir bara hér á netmiða og gakktu frá málinu snöggvast. 

Eftirpartý á Álfinum: 

Ef okkar mönnum tekst að halda hreinu aftur gegn Selfossi ætlar Soffía og hennar teymi á Álfinum í Hólagarði að bjóða vallargestum uppá ljúffengar kjúklingalundir eftir leik, áhorfendum að kostnaðarlausu (meðan birgðir endast). En hvernig sem fer, heldur partýið áfram í 111 þar sem trúbadorarnir í Duplex stíga á svið á Álfinum um það leyti sem leikurinn er flautaður af. 

Fylgist með á samfélagsmiðlum: 
Ef þú ert ekki núþegar að fylgja Leikni á Instagram og Twitter, er um að gera að bæta úr því hið snarasta. Þar færðu byrjunarliðið uppgefið fyrst og ýmis gleði skýtur upp höfðinu reglulega. Vertu memm og settu stoltið í Breiðholtið með okkur. 
Leiknir á twitter
Leiknir á instagram

Að síðustu, ef þú vilt fá áminningar um leiki og allt sem er að gerast hjá félaginu beint í tölvupóstboxið þitt, ekki klikka á að skrá þig á póstlistann okkar efst á vefverslun félagsins hér. 

#StoltBreiðholts