Fara á efnissvæði
IS EN PL
Karisteinn2024 (1)
Fréttir | 23.07.2024

Leikmannafréttir og Breiðholtsslagur

Kári Steinn Hlífarsson hefur gengið til liðs við Leikni frá Aftureldingu. Þessi spræki leikmaður er uppalinn hjá Breiðablik en hefur síðustu ár spilað í Mosfellsbænum. Stefan Bilic, sem hefur átt fínar innkomur hjá okkur í sumar, skrifaði fyrir helgi undir nýjan samning sem gildir út árið 2026. Þá hefur Jón Hrafn Barkarson flutt sig yfir í Garðabæinn og samið við Stjörnuna, við þökkum honum kærlega fyrir hans framlag í treyju Leiknis. Það er mikið í gangi á skrifstofum Leiknis þessa dagana og á vellinum undirbúa leikmenn sig fyrir Breiðholtsslaginn gegn ÍR sem fer fram í Mjóddinni fimmtudagskvöldið 25. júlí. Flautað verður til leiks kl. 19:15 og þið getið verslað miða á þennan spennandi slag á Stubbsappinu. Þetta verður hörð barátta og ykkar stuðningur skiptir máli til að ná í úrslit í þessum leik.

ÍR hefur komið mikið á óvart á þessu tímabili og verið í efri hluta deildarinnar. Þeir eru fyrir þessa umferð í 4. sæti deildarinnar með 19 stig í 13 leikjum eftir fimm sigra, fjögur jafntefli og fjóra tapleiki. Markatala ÍR-inga í þessum þrettán leikjum er 19:18. Drjúgastur fyrir ÍR í sumar hefur verið Bragi Karl Bjarkason sem er kominn með 8 mörk og er þriðji markahæstur í deildinni. Bjarki Karl varð markakóngur 2. deildarinnar í fyrra með ÍR þegar hann skoraði 21 mark í 22 leikjum, töluvert á undan næstu mönnum sem skoruðu 13 mörk. Það er augljóst að vörn Leiknis þarf að hafa sérstakt auga með þessum sóknarmanni. Næstu markaskorarar hjá ÍR eru Guðjón Máni Magnússon, Kristján Atli Marteinsson og Renato Punyed Dubon sem hafa skorað 2 mörk hver. Fjórir leikmenn ÍR hafa skorað eitt mark og eitt mark ÍR-inga var sjálfsmark.

Þeir byrjuðu á þremur útileikjum í röð á tímabilinu. Eftir óvæntan sigur á Keflavík í Keflavík í fyrstu umferð fylgdi jafntefli við Grindavík í Safamýri og svo tap gegn Leikni í Efra-Breiðholtinu. En þessi leikur gegn okkar mönnum verður fimmti heimaleikur ÍR-inga í röð. Í þeirri hrinu gerði liðið fyrst jafntefli við Þór, vann svo 3:0 sigra á bæði Aftureldingu og Grindavík áður en Keflavík náði að hefna fyrir tapið í fyrstu umferð með 0:1 sigri í síðasta leik.

Leiknir er í 10. sæti deildarinnar með 12 stig í 13 leikjum. Liðið hefur unnið fjóra sigra en er eina liðið í deildinni sem á enn eftir að gera jafntefli. Markatalan í þessum 13 leikjum er 15:23 þar sem Omar Sowe hefur skorað 6 mörk, Shkelzen Veseli 3 mörk, Róbert Quental 2 mörk og Egill Ingi Benediktsson, Jón Hrafn Barkarson og Róbert Hauksson 1 mark hver auk eins sjálfsmarks.

Leiknir og ÍR mættust síðast í þriðju umferð í deildinni í ár. Þá vann Leiknir 1:0 sigur með marki frá Omari Sowe.

Fyrsta tímabilið þar sem þessi tvö Breiðholtslið voru saman í deild var sumarið 1996 þegar þau voru bæði í 2. deildinni. ÍR vann þá báðar Breiðholtsviðureignirnar 3:2, fyrst á Leiknisvellinum þar sem Steindór Jóhannes Elíson og Róbert Arnþórsson skoruðu fyrir Leikni og síðan á ÍR-vellinu þar sem Heiðar Örn Ómarsson og Róbert Arnarsson skoruðu mörk Leiknis. Þetta var engin óskabyrjun fyrir Leikni en okkar félag hefur rétt sinn hlut á þessum árum sem eru liðin síðan. Í dag er staðan þannig að liðin hafa mæst 32 sinnum í meistaraflokki karla, Leiknir hefur unnið 15 leiki, ÍR unnið 12 og 5 leikir hafa endað með jafntefli. Markatalan í þessum 32 leikjum er 58:43, Leikni í hag. Í síðustu sex deildarleikjum á milli þessara liða hefur Leiknir unnið fjóra.

 

Miðasalan er á Stubbi. Mætum og hvetjum liðið okkar, stolt Breiðholts.

Áfram Leiknir!