Leiknir 0-3 Stjarnan
Fyrsti heimaleikur sumarsins í Bestu deildinni var spilaður í dag á grasvelli Domusnova í Breiðholtinu. Gestirnir í Stjörnunni tóku öll mörkin og öll stigin að þessu sinni, 0-3.
Stjörnumenn fengu vítaspyrnudóm sér í hag á 3.mínútu sem enginn hefði getað varið. Ekki einu sinni Viktor Freyr sem annars átti flottan leik í markinu.
Skyndisóknir gestanna reyndust okkar mönnum erfiðar og einni slíkri lauk með marki á 23. mínútu. 0-2 í hálfleik.
Svo fékk Emil Berger að líta rauða spjaldið á 63. mínútu og þá þyngdist róðurinn enn frekar fyrir heimamenn okkar og gestirnir náðu á endanum að bæta þriðja markinu sínu við. Ekki tókst þeim að klóra í bakkann með marki og því lýkur liðið 2. umferðinni án stiga og án marka.
Siggi og strákarnir hafa nú viku til að gera þetta upp og reima á sig markaskónna því næsti leikur er heimsókn til Vestmannaeyja á sunnudaginn næsta.