Fara á efnissvæði
IS EN PL
Photo 4.7.2022, 20 52 54
Fréttir | 05.07.2022

LEIKNIR 1-0 ÍA

Fyrsti sigur tímabilsins er kominn í hús! Þvílíkur léttir. Í gærkvöld. skyldi flott mark Mikkel Jakobsen liðin að í hörkuleik og strákarnir okkar gátu loksins fagnað því að uppskera eins og þeir hafa verið að sá í sumar. Það má með sanni segja að öllum innan félagsins og í stúkunni sé mikið létt og vonandi er þetta lyftistöng fyrir alla að keyra nú á seinni hluta deildarinnar af krafti og byrja að klifra upp töfluna.

Það var frábær stemning í Ghettóinu í gærkvöld og það lá í loftinu að nú væri kominn tími á að taka stigin þrjú enda hefði tap skilið félagið eftir í nokkuð mikilli brekku með framhaldið. Leikurinn einkenndist af baráttu eins og yfirleitt þegar Skagamenn sækja okkur heim en okkar menn kalla ekki allt ömmu sína og mættu með kassann út. 

Varnarlínan hélt vel og gestirnir náðu sáralítið að skapa sér af hættulegum færum allan leikinn. Það var svosem ekki margt að gerast framávið hjá okkur á móti en einhvern veginn skein í gegn að þetta skyldi nú takast og enginn hengdi haus. Og það kom á daginn. Danirnir tveir mættir inn í teig og þegar Dahl negldi í varnarmann datt boltinn fyrir Jakobsen sem sett´ann snyrtilega í hornið á 65. mínútu leiksins. 

Leikurinn snérist þá uppí að vera áskorun í að halda í forystu. Í þau fáu skipti sem það hefur verið uppi á teningnum í sumar, hefur gengið bölvænlega að halda ró og sigla stigunum heim. Í þetta sinn tókst það og þrátt fyrir einhverjar magnþrungnar mínútur og rauð spjöld í uppbót á bæði liðin, þá er Leiknir Reykjavík komið með einn sigur, í 11. sætið og í kallfæri við liðin fyrir ofan. Það er erfitt að ofmeta hversu stór þessi sigur er fyrir tímabilið. Ekki bara hvað statistík varðar heldur einnig fyrir stemninguna í kringum félagið. Það fannst vel eftir leik þegar fjölmennt var á Álfinn okkar, hverfisbarinn í Hólagarði og "Bjart í Breiðholti" var kyrjað fyrir fullum sal. 

Það er með sanni hægt að segja að 3 stig eru allavega þrisvar sinnum betri en 1. Áfram gakk! 

#StoltBreiðholts 

Skýrslan á .net

Viðtal við Sigga

Viðtal við Bigga Bald

Skýrslan á visir.is

Skýrslan á mbl.is