Leiknir 1-0 Selfoss
Leiknir er komið í 16-liða úrslit Mjólkubikarsins þetta árið eftir góðan sigur gegn Selfossi á síðasta degi vetrar. Leik lauk með 1-0 sigri Stoltsins og var það Omar Sowe sem setti boltann snyrtilega í netið yfir markvörð gestanna þegar 1 mínúta lifði af venjulegum leiktíma.
Það var vorbragur á leik beggja liða framan af en gestirnir hræddu mesta hrollinn úr okkar mönnum á fyrstu 30 mínútunum áður en okkar menn tóku völdin á leið inn í hálfleik án þess kannski að ógna marki þeirra um of.
Í seinni hálfleik komst betra flæði í sóknarleik Leiknis og gestirnir reiddu sig á skyndisóknir til að koma höggi á okkar lið. Gary Martin átti nokkur færi og að sama skapi áttu unglingarnir Davíð Júlían og Robert Quental færi til að koma okkur yfir.
Sigurinn vannst þó um síðir þegar Sindri Björns sendi boltann innfyrir á nýja sóknarmanninn okkar og hann sýndi gæði með því að setj´ann upp og í hornið á netinu við mikinn fögnuð þeirra rúmlega 150 áhorfenda sem voru mættir í gömlu stúkuna við gervigrasið.
Það var virkilega gaman að klára veturinn með góðum sigri gegn andstæðingi sem kemur aftur í heimsókn eftir rúmar 3 vikur í Lengjudeildinni og nú getum við látið okkur hlakka til nýs andstæðings þegar dregið verður í 16-liða úrslit á miðvikudag næstu viku. Leikurinn mun svo fara fram um miðjan næsta mánuð.
#StoltBreiðholts