Leiknir 1-0 Þór Akureyri
Fátt virðist geta stoppað okkar menn í Lengjudeildinni þessa dagana og það sannaðist þegar sigur vannst á Þórsurum nánast með síðustu snertinu leiksins þegar Omar Sowe lyfti sér hátt upp í teignum og jarðaði boltann í netið eins og sönnum senter sæmir. 3 stig fjórða heimaleikinn í röð og 5. sigur í síðustu 6 leikjum fyrir Stolt Breiðholts.
Eftir 9 daga pásu frá sigrinum gegn Þrótt Reykjavík var það smá erfiðleikum háð að ná sama orkustigi upp og hefur verið en það er klárlega svægi leik okkar manna og færin komu inn á milli þó erfitt reyndist að klára þau eða ná athygli línuvarða á þeim. Gestirnir áttu sín færi líka en okkar menn virðast vera hættir að gefa eins ódýr færi á sér og var raunin fyrr í sumar. Bragurinn á leik liðsins er allt annar. Mörk og stig spila líklega stóra rullu þar og er það vel.
Næsti mótherji eru Skagamenn á Skipaskaga. Þar mætum við því liði sem er í besta formi deildarinnar með 13 stig af síðustu 15 mögulegum en við erum líka klárir í slaginn með okkar 12 af 15 mögulegum. Nú fjölmennum við í stemmara á Skipaskaga þar sem strandbarinn verður ugglaust opinn og skálum fyrir baráttunni kæra Leiknisfólk.
#StoltBreiðholts