Leiknir 1-2 Breiðablik
Meistaraflokkur fer inn í langt frí frá keppnisleikjum án sigurs þökk sé langsterkasta liði landsins í Breiðablik. Tapið var naumt en tap engu að síður.
Góðu fréttirnar eru að Bjarki kom til baka í byrjunarliðið í gær. Róbert Hauks skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið af harðfylgi úr skalla, í opnum leik. Stóru erlendu kaupin í vetur fá nú tíma til að láta sín sár gróa og standa undir miklum væntingum sem til þeirra eru gerðar.
Eins og Binni sagði í viðtali eftir leikinn í gær eru allir þreyttir á að ræða tölfræði og hvernig þetta á að fara að detta með okkur. Það er djúp naflaskoðun og ákveðið uppgjör við fyrsta þriðjung tímabilsins framundan ásamt langþráðri hvíld. Svo gerum við ráð fyrir bilaðri orku inni á vellinum og í stúkunni. Á báðum vígstöðvum þurfum við að sýna að við eigum skilið að vera litla liðið í stóru deildinni áfram.
Næsti leikur meistaraflokks verður í Kaplakrika, þann 16.júní næstkomandi. Sjáumst þar, snælduvitlaus gegn öðru liði sem hefur strögglað í byrjun tímabils. Við verðum að gera okkur mat úr því.
#StoltBreiðholts
#HverfiðKallar