Fara á efnissvæði
IS EN PL
Photo 8.4.2023, 14 14 05
Fréttir | 08.04.2023

Leiknir 2-0 Árbær FC

Leiknismenn eru komnir í 32-liða úrslit í Mjólkurbikarnum þetta árið eftir 2-0 sigur á Árbær FC á Domusnovavellinum í dag.

Gestirnir verða nýliðar í 3.deild í sumar svo það má kalla þetta skyldusigur en þeim tókst að slá Víking Ólafsvík í 1. umferð um síðustu helgi með miklu harðfylgi og því var vanmat ekki á boðstólnum í Breiðholti í dag. Sem betur fer tókst að opna gestina snemma leiks og var það Danni Finns sem setti boltann með fallegu vinstrifótarskoti frá því rétt fyrir utan teig á 8. mínútu. 

Eins og síðustu helgi gegn Víkingi voru Árbæingar vanir að vera litli aðilinn og vörðust af hörku og biðu þess að vörn okkar manna myndi misstíga sig. Þeir áttu eitt færi þar sem sóknarmaður gestanna var kominn einn í gegn en Viktor Freyr sá við því og yfir höfuð var vörnin okkar þétt og góð í leiknum. 

Það reyndist erfitt að buga litla liðið með risastóra hjartað en þolinmæði er dyggð og þega rúmar 15 mínútur voru búnar af seinni hálfleik náði Omar Sowe að sigrast á rangstöðugildru gestanna og setja sitt fyrsta keppnismark fyrir félagið. 

Leikurinn spilaðist út án þess að verða leiðinlegur og menn voru klárlega hungraðir í að bæta við en settu hreina skjöldinn þó ekki í hættu. Faglega að verki staðið hjá Stolti Breiðholts og því fáum við að láta okkur dreyma um bikarævintýri áfram en á þriðjudag verður dregið í 32-liða úrslit þar sem Bestudeildarliðunum er sturtað í pottinn. Sá leikur verður spilaður eftir aðeins um 10 daga og því má með sanni segja að tímabilið er hafið þó deildin hefjist ekki fyrr en 5.maí. 

Við þökkum Árbæingum fyrir leikinn í dag og óskum þeim góðs gengis í 3.deildinni í sumar. Miðað við frammistöðuna í bikarnum þetta árið, er enginn vafi á því að þeir komi sterkir inn. 

#StoltBreiðholts