Fara á efnissvæði
IS EN PL
500W (20)
Fréttir | 14.05.2023

LEIKNIR 2-3 Selfoss

Á föstudagskvöld fór fram fyrsti heimaleikur sumarsins í Lengjudeildinni þegar Selfyssingar komu í Breiðholtið og hirtu öll stigin í fjörugum leik.

Það var mikið um að vera í Austurberginu á föstudagskvöldið og þökkum við öllum þeim sem mættu á svæðið þrátt fyrir rigingu og nokkurn kulda. Húsfyllir var þegar Davíð Snorri og Freyr Alexandersson tóku sögustund um tíma sinn sem þjálfarar félagsins í félagssalnum og mikil stemning myndaðist við að rifja upp ljúfar minningar. 

Leikurinn var spilaður á gervigrasinu og því þurftu okkar allra hörðustu stuðningsmenn að láta sér nægja sóvíeska steypustúkan sem einhvern veginn er ekki alveg hrunin ennþá. Það kom ekki að sök. Í boði var baráttuleikur milli tveggja skemmtilegra liða og stuðningsmanna sem setja lit sinn á deildina. 

Byrjunarlið Leiknis var nokkuð breytt frá sigrinum gegn Þrótti en þeir Andi Hoti og Ósvald Jarl voru frá vegna meiðsla og Róbert Quental Árnason fékk traustið í byrjunarliðinu eftir að hafa átt virkilega skemmtilega innkomu gegn Þrótti sem opnaði leikinn fyrir liðið. 

Leikurinn var kaflaskiptur og áður en Danni Finns skoraði fyrsta markið í 12. mínútu höfðu gestirnir verið nokkuð meira með boltann og átt sláarskot sem sem hristi vel uppi í mannskapnum. En svipað og gegn Þrótti fyrir viku áttu okkar menn erfitt með að nota markið til að bæta í og brjóta niður andstæðinginn. Selfyssingar áttu sín færi og á 22. mínútu fengu þeir aukaspyrnu af löngu færi. Há fyrirgjöf frá Jóni Vigni Péturssyni í liði Selfyssinga varð að skoti þegar boltinn sigldi yfir Viktor Frey og í netið á einhvern ótrúlegan hátt. 1-1 var staðan í hálfleik. 

Gestirnir virðast hafa unnið hálfleiksræðukeppnina því þeir settu pressu á okkar menn og voru komnir með 2 mörk í viðbót á fyrstu 15 mínútum seinni hálfleiks. Í báðum tilfellum var sofandaháttur í varnarleik okkar manna og gestirnir einfaldlega ágengari í boltann. 

En það vantaði ekkert uppá baráttuna í Breiðhyltingum og með fyrrnefndan Róbert Quental Árnason á hægri kantinum var herjað upp að teig Selfyssinga ítrekað. Hins vegar vantaði töluvert uppá mætingu liðsfélaga hans í teiginn til að klára færin. Það var eftir eitt slíkt færi sem boltinn datt á endanum fyrir 18 ára lánsmanninn Ólaf Flóka Stephensen á mörkum vítateigsins vinstra megin. Hann mundaði boltann og þrumaði honum í netið á nærstöng. Ákaflega smekklegt fyrsta mark hans fyrir Leikni og það hefur örugglega glatt Sigga Höskulds sem stóð í slyddunni með gömlum félögum að fylgjast með nýjum og gömlum lærisveinum sínum. 

Okkar með reyndu hvað þeir gátu að ógna markið gestanna en eins og áður segir náðu þeir ekki að gera sér mat úr sendingum Róberts Quental sem greip tækifærið í byrjunarliðinu og virðist vera að stíga upp af krafti í meistaraflokksboltanum. Á móti komu nokkur hraðaupphlaupsfæri hjá Selfyssingum en Viktor Freyr hafði engan húmor fyrir því að fá fleiri en 3 mörk á sig þann daginn og læsti markinu nokkrum sinnum vel. 

Niðurstaðan tap í fyrsta heimaleik en eins og margir hafa haft orð á er deildin galopin og allir geta unnið alla. Aðeins Afturelding lifði fyrstu 2 umferðirnar af með fullt hús stiga og Leiknir er í 4. sæti, sem markahæsta liðið, svo því sé haldið til haga. 5 mörk í fyrstu 2 leikjum er eitthvað sem við sáum ekki í fyrra og fullt af uppöldum að spila stærstu rullurnar. Það er nóg til að setja stoltið í Breiðholtið. 

Næsti leikur er svo á næsta leyti en það er 16-liða úrslitaleikur í Mjólkurbikarnum á þriðjudagskvöld gegn Þór Akureyri, nyrðra. 
Hér að neðan er svo hægt að njóta ágripa af leiknum ásamt mörkunum auðvitað, frá YouTube-rás félagsins, sem við hvetjum alla til að gerast áskrifendur að. 

#StoltBreiðholts