Fara á efnissvæði
IS EN PL
Photo 20.7.2023, 20 58 22 (0)
Fréttir | 21.07.2023

Leiknir 3-2 Þróttur Reykjavík

Sumarið er komið og Leiknir í 4. sæti þegar þetta er skrifað. Það skrifast einmitt á 3 sigurleiki í röð og 4 í síðustu 5 leikjum í Lengjudeildinni góðu.

Þróttarar komu í heimsókn úr Laugardalnum í gærkvöld og liðin voru fyrir leikinn í 6. og 7. sæti og því til mikils að vinna fyrir þá sem gætu hreppt stigin 3. Leikurinn var fjörugur og fyrsta markið skoruðu gestirnir eftir enn einn gauraganginn í vítateig okkar manna. 

Þeir dustuðu þó af sér rykið og þeir Omar Sowe og Danni Finns (úr vítaspyrnu eftir undirbúning Omars) tryggðu að Leiknisfólk fór glatt inn í leikhlé með Reykjavíkurslaginn í hendi sér. 

Strákarnir komu svolítið flatir inn í þann seinni og náði Aron Snær Ingason að jafna leikinn fyrir gestina á 71. mínútu. Þá reið á vaðið Hjalti, nokkur, Sigurðsson sem hefur svo sannarlega verið betri en enginn uppá síðkastið, og kláraði leikinn fyrir okkar menn með marki af harðfylgi á 79. mínútu og kauði leiddi svo félaga sína í skotgröfunum síðasta kortérið til að tryggja stigin 3 og mikla gleði í Breiðholtinu á þessu fallega sumarkvöldi. 

Nú tekur við 9 daga pása og við fáum Þór Akureyri í heimsókn á laugardaginn um næstu helgi. Leiknir komst í 4. sæti með þessum sigri en mjög misjafnt er hversu marga leiki liðin eru búin að leika og því ekki mikið að marka þá stöðu. Hins vegar eru 3 stigi í hendi margfalt betri en óspilaðir leikir og því mikið gleðiefni fyrir okkar fólk að vera komin sem lengst frá falldraugnum og með í umræðunni um umspilssæti. Það er ótrúlegt hvað 3 vikur geta breytt miklu fyrir lítið félag í Breiðholtinu góða. 

#StoltBreiðholts