Fara á efnissvæði
IS EN PL
Photo 22.8.2022, 18 11 58
Fréttir | 22.08.2022

Leiknir 4-3 KR

3. sigurinn þetta sumarið í Bestu deildinni kom í kvöld og var hann af dýrari og skemmtilegri gerðinni. 4-3 voru lokatölur í hörkuleik við lærisveina Rúnars Kristinssonar í kvöld.

Í fyrsta sinn síðan á 20.mínútu fyrsta leiksins í vor fengum við að sjá kempurnar í hópnum, Bjarka, Binna og Óttar Bjarna í byrjunarliðinu. Þeir Dagur og Biggi voru bakverðirnir sitthvorum megin við gömlu mennina og Viktor að sjálfsögðu í rammanum. Þeir Emil, Daði og Krissi Konn voru svo fyrir aftan dönsku tvennuna Mikkel Dahl og Zean Peetz Dalugge. 

Eftir 4 súra ósigra í röð var von margar stuðningsmanna að fjara út en sem betur fer voru Siggi og félagar ekki á sama máli og buðu upp á veislu sem veðrur lengi í minnum höfð. Daði Bærings, af öllum mönnum, reið á vaðið með því að skoða utan af velli á 11.mínútu leiksins. Eftir það lá nokkuð á okkar mönnum en grunar mann að það hafi verið að ásettu ráði því færin voru nokkuð örugglega saklaus. Þangað til að menn gleymdu sér aðeins og héldu að boltinn væri kominn útaf. Þá kom sending fyrir og eftir smá hamagang í teignum skrifaðist jöfnunarmark á fyrirliðann okkar á 42. mínútu. Bróðir Bjarka með fyrirliðabandið hinum megin á vellinum skoraði þó sitt eigið, jafnóstöðvandi, sjálfsmark hinum megin í uppbót fyrri hálfleiks. Að svo stöddu er það mark skráð í skýrslu á lánsmanninn okkar Dalugge en sjónvarpsútsendingar sýna að það á að skrást á bróðurinn þó undirbúningur Danans hafi verið glæsilegur. 2-1 fyrir okkar menn í hálfleik og spurning hvort með nái að halda þetta út. 

Gestirnir voru síður en svo betri aðilinn í þeim seinni þó heimamenn hafi nokkrum sinnum þurft að taka á honum stóra sínum og Viktor Freyr stóð sig vel í sínu hlutverki. Svo tókst lánsmanninum góða að fiska mjög verðskuldaða vítaspyrnu á 65. mínútu og Emil Berger lét ekki segja sér það tvisvar af vítapunktinum. Óverjandi og Ghetto Boys og co. í stúkunni gátu farið að láta sig dreyma um 3 stig gegn stórveldinu gamla. 

En þá vaknaði risinn og fékk reyndar á silurfati ódýra vítaspyrnu til að fá vatn í munninn. Kjartan Henry skoraði úr henni á 83. mínútu og tveimur mínútum síðar náði Kristinn Jónsson að jafna leikinn.Miðað við sögu síðustu leikja var hægt að veðja aleigunni á að gestirnir myndu nú ganga á lagið og endanlega brjóta okkar menn á bak og troða stigunum 3 í pokann á leið aftur í vesturbæinn. En það hinn lánsmaðurinn, Adam Örn Arnarson sá flott hlaup hjá hinum lánsmanninum og stakk boltanum upp völlinn fyrir hann. Sá hinn sami læsti augunum á mark gestanna, mundaði boltann inni í teig og þrusaði, að því er virtist, í gegnum Beiti í markinu. Þetta var á síðustu mínútu venjulegs leiktíma og óhætt að segja að menn trylltust í stúkunni og inni á vellinum. 

Þrátt fyrir nokkur horn og áhlaup í uppbót tókst okkar mönnum að halda haus og eftirminnilegur og langþráður sigur í höfn. Næsti leikur er á útvelli gegn toppliði Breiðabliks hvar þeir hafa aðeins misst af tveimur stigum af 24 mögulegum í sumar. Það hefði verið margfalt þyngri og leiðinlegri tilhugsun ef leikurinn í kvöld hefði tapast. Einhvern veginn er allt hægt þegar síðasti leikur var sigurleikur. Við höfum séð það áður og við munum mæta með gleðina að vopni á Kópavogsvöll næsta sunnudag klukkan 19:15. 

Sjáumst þar! 

 

#StoltBreiðholts

 

Skýrsla KSÍ

Skýrsla .net

Viðtal við Sigga á .net

Viðtal við Bjarka á .net

Skýrsla mbl.is 

Skýrsla Visir.is