Leiknir og Aþena gera með sér samkomulag
Aþena og Leiknir hafa gert með sér samkomulag og ákveðið að senda sameiginlegt lið til keppni í 1. deild meistaraflokks kvenna í körfuknattleik keppnistímabilið 2022-23. Þessi ákvörðun er hluti af aðgerðaráætlun liðanna sem miðar að því að byggja upp fjölbreyttara og metnaðarfyllra íþróttastarf í Efra-Breiðholti.
Myndin sýnir Stefán Pál Magnússon framkvæmdastjóra Leiknis, Brynjar Karl Sigurðsson formann körfuknattleiksdeildar Leiknis og Jóhönnu Jakobsdóttir formann Aþenu takast í hendur við undirritun þessa samstarfs.
Vonir standa til þess að liðið muni spila heimaleiki sína í íþróttahúsinu Austurbergi í ljósi þess að ÍR er í þann mund að taka við nýrri og glæsilegri aðstöðu í Neðra-Breiðholti og mun því að öllu óbreyttu kveðja Austurbergið.
Körfuknattleiksdeild Leiknis var stofnuð árið 1992 og lið félagsins í meistaraflokki karla leikur í 2. deild á yfirstandandi leiktíð. Það er því fagnaðarefni að í fyrsta skipti í langri sögu félagsins muni Leiknir senda lið til keppni í meistaraflokki kvenna.
Einstaklega fáar stelpur æfa íþróttir úr Efra-Breiðholti, en það er okkar staðfasta von og trú að með tilkomu meistaraflokks kvenna í körfubolta í Efra-Breiðholti muni það hvetja ungar stúlkur í hverfinu til íþróttaiðkunar undir samheldnu átaki Aþenu og Leiknis.