Fara á efnissvæði
IS EN PL
Grotta Leiknir2024
Fréttir | 22.05.2024

Leiknir sækir Gróttu heim

Leiknir vann sterkan sigur á nágrönnunum í ÍR í síðustu umferð og nú er komið að heimsókn á Seltjarnarnesið. Grótta verður mótherjinn í fjórðu umferð og flautað verður til leiks á Vivaldivellinum klukkan 14:00 laugardaginn 25. maí.

Með sigrinum á ÍR fór Leiknir upp í 9. sæti Lengjudeildarinnar, með 3 stig eftir 3 leiki og markatöluna 2:3. Róbert Quental Árnason og Omar Sowe hafa skorað mörk Leiknis til þessa.

Grótta er í fjórða sæti deildarinnar með 5 stig eftir einn sigur og tvö jafntefli. Í fyrstu umferð fór Grótta í Mosfellsbæ og gerði 1:1 jafntefli við Aftureldingu. Í sínum fyrsta heimaleik vann Grótta 1:0 sigur á Keflavík og í þriðju umferð varð niðurstaðan 2:2 í fjörugum leik gegn Grindavík í Safamýrinni. Markatala Gróttu eftir 3 leiki er 4:3. Hollendingurinn Damian Timan hefur skorað 2 mörk en þeir Tómas Orri Róbertsson og Arnar Daníel Aðalsteinsson hafa skorað sitt hvort markið. 

Leiknir og Grótta voru saman í Lengjudeildinni í fyrra. Fyrri leikur liðanna fór fram á Seltjarnarnesi í byrjun júní þar sem heimamenn unnu 5:1 sigur. En Leiknir vann leikinn í Breiðholti í ágúst 2:1 þar sem Róbert Quental og Arnór Ingi Kristinsson skoruðu mörk Leiknis.

Samkvæmt gagnagrunnum KSÍ hafa þessi lið mæst 14 sinnum í meistaraflokki karla. Fyrsti leikur þeirra var í 1. umferð Mjólkurbikarsins árið 1992, þá vann Grótta 1:0 sigur á Gróttuvellinum. En síðan þá hefur Leiknir unnið sjö sinnum, Grótta hefur samtals unnið fjóra leiki og þrisvar hafa leikar endað með jafntefli. Markatalan í þessum 14 leikjum er 29:25, Leikni í vil.

Við hvetjum allt Leiknisfólk til að fjölmenna á völlinn og sýna strákunum okkar stuðning.

Hægt er að kaupa miða á leikinn á Stubbi:

Kaupa miða