Fara á efnissvæði
IS EN PL
HOF Leiknis2
Fréttir | 18.05.2022

Leiknishofið: Halldór Kristinn Halldórsson

Á sunnudagskvöld var 4. meðlimur Heiðurshallar Leiknis vígður uppá vegginn góða. Halldór Kristinn Halldórsson varð þess heiðurs aðhljótandi.

Dóri, sem spilaði miðvarðastöðuna, er einn leikjahæsti leikmaður í sögu félagsins með 184 Meistaraflokksleiki í deild og bikar. Hann tók forskot á efstudeildarsæluna með því að skipta yfir á Hlíðarenda sumarið 2011 og dvaldi þar tvö tímabil áður en hann skipti yfir í Keflavík þar sem hann dvaldi einnig tvö tímabil meðan gömlu félagarnir í Ghettóinu unnu 1. deildina með glæsibrag. 

Þá rann honum blóð til skyldunnar að koma aftur í hverfið og miðla af reynslu sinni í baráttunni um að halda í efstudeildarsætið 2015. Þó að það verkefni hafi ekki verið farsælt var Halldór valinn Leikmaður tímabilsins í röðum Leiknis eftir að hafa spilað alla leiki sumarsins og skorað 3 mörk.

Kappinn spilaði svo tvö tímabil í viðbót með Leikni áður en hann lagði skóna á hilluna fyrir utan nokkra leiki með KB og svo Reyni Sandgerði árið 2020. 

Við bjóðum Halldór Kristinn velkominn í hóp goðsagna Leiknis sem prýða HOF félagsins. Leiknisljónin munu taka hann tali bráðlega af þessu tilefni og verður vel auglýst þegar hlaðvarpið með honum fer í loftið. 

#StoltBreiðholts

#HOF