Fara á efnissvæði
IS EN PL
FB IMG 1648327182280
Fréttir | 29.03.2022

Leiknislandsleikjahlé að baki

Landslið Íslands í ýmsum flokkum hafa verið að spila nokkra leiki síðustu vikuna og höfum við Leiknismenn átt okkar fulltrúa þar. Þeir Andi Hoti og Daníel Finns Matthíasson spiluðu fyrir U-19 ára og U-21 landsliðin auk þess sem okkar maður í Lyngby, Sævar Atli Magnússon, var í framlínu U-21 liðsins. 

U-19 ára liðið var í keppnisferð í Króatíu þar sem þeir spiluðu 3 umspilsleiki um sæti á EM 2022. Andi spilaði allar mínúturnar í öllum þremur leikjunum. Sá fyrsti var tapleikur gegn heimamönnum í Króatíu, 2-1 síðasliðinn miðvikudag. Á laugardaginn gerðu strákarnir 1-1 jafntefli gegn Georgíu og í dag unnu þeir topplið riðilsins, Rúmeníu, 3-0. Andi gerði sér lítið fyrir og skoraði fyrstu tvö mörkin fyrir Ísland en hann fer ekki á EM þar sem Rúmenía hélt toppsætinu þrátt fyrir tapið. Það er þó mikið ánægjuefni að þessi leikmaður sem allir innan Leiknis eru spenntir fyrir, er að setja mark sitt í landsliðsumhverfinu. Það væri ekki leiðinlegt að sjá hann vaxa þar enn frekar og stíga upp í næstu stig. 

U-21 ára liðið undir stjórn Davíðs Snorra Jónassonar, mætti tveimur sterkum andstæðingum. Annars vegar gerðu þeir flott jafntefli gegn fyrnasterku liði Portúgala í Portúgal á föstudag, 1-1. Sævar Atli spilaði allan leikinn en Daníel Finns var ónotaður varamaður í þeim leik. Hins vegar mættu þeir Kýpur í dag og gerðu einnig 1-1 jafntefli. Sævar Atli spilaði allan leikinn og fékk Danna Finns inná með sér síðustu 4 mínútur leiksins þar sem jönfnunarmark Íslands var skorað. U-21 liðið á 3 leiki eftir í júní sem verða allir spilaðir á Víkingsvelli í Fossvoginum. 

Nú eru aðeins 22 dagar í fyrsta leik Leiknis í Bestu Deildinni fyrir norðan gegn KA-mönnum. 

#StoltBreiðholts

Mynd: Hulda Margrét