Fara á efnissvæði
IS EN PL
700W (1)
Fréttir | 06.09.2024

Leikur í Laugardalnum

Það er komið að síðasta útivallarleik sumarsins hjá Leikni þegar liðið heldur í Laugardalinn og mætir Þrótti sunnudaginn 8. september klukkan 14:00. Bæði lið eru örugg frá falli, Þróttur á langsóttan möguleika á að komast í umspilssæti en Leiknismenn vilja enda tímabilið eins vel og hægt er með því að klifra upp töfluna eins og hægt er. Miðasalan er á Stubbi, mætum endilega á völlinn og styðjum strákana okkar.

Leiknir er í 9. sæti Lengjudeildarinnar með 24 stig í 20 leikjum og markatöluna 29:31. Liðið er með 9 stig í síðustu 5 leikjum og markatöluna 11:6. Markaskorarar tímabilsins hjá Leikni eru Omar Sowe með 11 mörk, Shkelzen Veseli með 5 mörk, Róbert Quental Árnason með 4 mörk, Róbert Hauksson með 3 mörk, Sindri Björnsson 2 mörk og svo Egill Ingi, Jón Hrafn og Kári Steinn með eitt mark hver auk eins sjálfsmarks.

Tveir leikmenn hafa komið við sögu í öllum 20 leikjum Leiknis á tímabilinu, það eru Viktor Freyr í markinu og Róbert Quental.

Þróttur er í 7. sæti deildarinnar með 27 stig eftir 20 leiki og markatöluna 30:26. Þróttur gerði 2:2 jafntefli við Grindavík í síðasta leik eftir að hafa unnið Keflavík 3:2 í leiknum þar á undan. Markahæstu leikmenn Þróttar á tímabilinu eru Kári Kristjánsson með 8 mörk, Liam Daði Jeffs með 4 mörk og þeir Jorgen Pettersen og Vilhjálmur Kaldal Sigurðsson hafa skorað 3 mörk hvor. Þróttararnir hafa náð að dreifa markaskoruninni mjög vel í sumar því alls hafa 13 leikmenn Þróttar skorað mörk fyrir liðið.

Síðast þegar þessi lið mættust þá vann Leiknir 3:1 sigur í Breiðholtinu í lok júní með mörkum frá Jóni Hrafni, Shkelzen og Omari Sowe. Jorgen Pettersen skoraði eina mark Þróttar í leiknum.

 

Hefjum undirbúninginn fyrir lokaleikinn og lokahófið með ferð í Laugardalinn.

Áfram Leiknir!

 

Miðasalan á Stubbi.