Fara á efnissvæði
IS EN PL
Leiknir 01
Fréttir | 30.04.2025

Lengjudeildin hefst í Laugardalnum

Lengjudeildin fer af stað hjá Leikni þetta sumarið föstudaginn 2. maí þegar liðið fer í Laugardalinn og mætir Þrótti. Leikurinn hefst klukkan 19:15 og miðasalan er sem fyrr á Stubbi (hægt að kaupa miða hérna). Fjölmennum á þennan föstudagsleik og fögnum strákunum okkar í fyrsta deildarleik sumarsins.

Leiknir og Þróttur hafa mæst 47 sinnum áður í meistaraflokki karla. Leiknir hefur unnið 26 af þessum leikjum, Þróttur 15 og sex leikir hafa endað með jafntefli. Markatalan er 87:76, Leikni í vil. Leiknir hefur unnið síðustu sex leiki liðanna í röð og hefur unnið 21 af síðustu 25 leikjum liðanna.

Fyrri leikur liðanna síðasta sumar fór fram í Breiðholtinu. Jón Hrafn Barkarson, Shkelzen Veseli og Omar Sowe skoruðu mörk Leiknis en Jorgen Pettersen eina mark Þróttara í 3:1 sigri Leiknis. Seinni leikurinn var síðan spilaður í Laugardalnum í byrjun september. Omar Sowe skoraði þá tvö mörk og Róbert Hauksson eitt á fyrsta hálftíma leiksins (raunar á sex mínútna kafla) en Birkir Björnsson og Kári Kristjánsson minnkuðu muninn undir lok leiks. Niðurstaðan 3:2 sigur Leiknis. Sex stig og sex mörk voru niðurstaðan gegn Þrótti í fyrra en nú er komið nýtt tímabil og það er ekkert gefið gegn Þrótti í þessum leik.

Þróttarar eru með gott verkefni í gangi og í spá þjálfara og fyrirliða deildarinnar er þeim spáð fjórða sætinu.

Leikni er aftur á móti spáð 9. sætinu.

Þessi lið voru hlið við hlið í lokastöðu Lengjudeildarinnar á síðasta ári. Þá endaði Þróttur í 7. sæti með 30 stig eftir 8 sigra, 6 jafntefli og 8 tapleiki. Markatalan þeirra var 37:31. Leiknir endaði sæti neðar, í 8. sætinu, með 28 stig eftir 8 sigra, 4 jafntefli og 10 tapleiki. Markatala Leiknis var 33:34.

 

Nú viljum við sjá okkar lið byrja mótið af krafti með góðri og skemmtilegri frammistöðu. 

Áfram Leiknir!