Fara á efnissvæði
IS EN PL
Inshot 20221026 143449405
Fréttir | 26.10.2022

Lokahóf Leiknis 2022

Á laugardag lýkur Bestu deildinni þetta árið og þátttöku okkar ástkæra félags í bili. Vonbrigðin eru tilfinnanleg hjá öllum sem unna félaginu en þeir sem þekkja almennilega til vita vel að við höfum séð það margfalt svartara en að þurfa nú að taka eitt skref aftur til að hlaða í nýtt ævintýri og það eru svo sannarlega tímamót framundan hjá félaginu sem verður 50 ára á nýju ári.

Okkar litla félag í efri byggðum dregur mikinn lærdóm af þessum tíma. Leikmenn, þjálfarar, starfsmenn, sjálfboðaliðar og stuðningsmenn hafa aldrei tekið þátt í jafnlöngu leiktímabili og þó betur hefði mátt fara er nú kominn tími til að fagna því einfaldlega að geta náð andanum, kveðja þennan tíma og horfa til framtíðar. 

Það vantar ekki umræðuefnin sem þarf að taka fyrir. Nýr maður í stjórastólinn, mikil breyting á leikmannahópi fyrirséð og auðvitað endurkoma ferðalaga um hina ýmsu landshluta til að fyglja strákunum næsta sumar. Ár 50 verður ógleymanlegt fyrir Stoltið og með þroskan sem félagið tekur úr þessu ári er klárt að það stendur uppi sterkara en nokkru sinni fyrr. 

Fastir liðir eins og venjulega verða á dagskrá eins og ræðuhöld og Leikmaður Ársins kynntur en svo verður hægt að skoða fullkláraðan HOF-vegginn ásamt því að Heiðurshallarmeðlimir verða heiðraðir í sal. Fortíðin, nútíðin og framtíðin mætast á þessu fína lokalaugardagskvöldi októbermánaðar. 

Takk fyrir okkur og sjáumst öll kát í Leiknishúsi! 

#StoltBreiðholts