Makuszewski í Leikni
Fréttatilkynning Leiknis
Leiknir hefur samið við pólska kantmanninn Maciej Makuszewski og mun hann spila fyrir Breiðholtsliðið á komandi tímabili. Makuszewski er 32 ára og býr yfir mikilli reynslu. Hann hefur leikið fimm landsleiki fyrir pólska landsliðið og var í 35 manna úrtakshóp Póllands fyrir HM í Rússlandi 2018. Hann var þó ekki hluti af lokahópnum.
Hann lék síðast fyrir Jagiellonia Białystok en 2016-2020 var hann hjá hinu öfluga liði Lech Poznan.
Leiknir bindur miklar vonir við Makuszewski í sumar og vonast til þess að koma hans muni auka áhuga á félaginu meðal pólska samfélagsins á Íslandi. Leiknir hafnaði í áttunda sæti í efstu deild í fyrra og leikur í fyrsta sinn tvö ár í röð í deild þeirra bestu.
Félagið hefur unnið markvisst að því að styrkja sóknarlínuna að undanförnu og fékk dönsku leikmennina Mikkel Jakobsen og Mikkel Dahl en sá síðarnefndi varð markakóngur færeysku deildarinnar í fyrra. Þá fékk félagið hinn unga og spennandi Róbert Hauksson frá Þrótti.
Áður hafði félagið endurheimt tvo uppalda leikmenn; varnarmanninn Óttar Bjarna Guðmundsson og miðjumanninn Sindra Björnsson.