
Menningarlegur Breiðholtsslagur
Leiknir gerði góða ferð norður í land um síðustu helgi og vann 2:1 sigur á Völsungi. Dagur Ingi Hammer og Kári Steinn Hlífarsson skoruðu mörk Leiknis en Sergio Parla Garcia hafði jafnað leikinn fyrir heimamenn. Þetta voru mikilvæg stig í Lengjudeildarbaráttunni, nú eru aðeins fjórar umferðir eftir og í næstu umferð mætast Breiðholtsliðin tvö á Domusnovavellinum. Leikurinn verður flautaður á klukkan 14:00 laugardaginn 23. ágúst, á sjálfa Menningarnótt í Reykjavík.
Leiknir er nú komið með tvo sigra í röð og samtals 16 stig í 10. sæti deildarinnar. Liðin fyrir neðan Leikni unnu bæði í síðustu umferð svo baráttan er hörð. Leiknir hefur skorað 18 mörk í deildinni til þessa, markahæstur er Dagur Ingi Hammer með 7 mörk, á eftir honum koma Shkelzen Veseli með 4 og Kári Steinn Hlífarsson með 2 mörk. Axel Freyr Harðarson, Djorde Vladislavljevic, Dusan Brkovic, Patryk Hryniewicki og Þorsteinn Emil Jónsson hafa skorað eitt mark hver.
Á sama tíma og Leiknir hefur unnið tvo leiki í röð hafa ÍR-ingar tapað tveimur leikjum í röð, fyrst 3:1 á útivelli gegn Þrótti og svo 0:1 á heimavelli gegn Þór. Eftir ágætis byrjun hefur ÍR farið niður á við í töflunni og er nú í 4. sætinu með 33 stig. ÍR hefur skorað 33 mörk á tímabilinu. Markahæstur þeirra er Bergvin Fannar Helgason með 6 mörk, síðan kemur Guðjón Máni Magnússon með 4 mörk. Arnór Sölvi Harðarson, Emil Nói Sigurhjartarson, Óðinn Bjarkason og Víðir Freyr Ívarsson hafa allir skorað 3 mörk og Renato Punyed Dubon er með 2 mörk.
Síðast mættust þessi lið fyrir framan rúmlega þúsund áhorfendur á ÍR vellinum um miðjan júní. Þá skoraði Óðinn Bjarkason eina mark leiksins og tryggði ÍR sigur. Breiðholtsliðin hafa 35 sinnum áður mæst á fótboltavellinum í meistaraflokki. Leiknir hefur unnið 16 leiki, ÍR 14 leiki og 5 hafa endað með jafntefli. Markatalan í leikjunum 35 er 60:46 fyrir Leikni.
Kæra Leiknisfólk,
fjölmennum á völlinn og styðjum strákana okkar í þessum mikilvæga leik. Áfram Leiknir!