Mikilvægur heimaleikur
Eftir svekkjandi tap gegn ÍR á útivelli í síðustu umferð er komið að risaleik gegn Gróttu á heimavelli í 15. umferð Lengjudeildarinnar. Leikurinn á Domusnovavellinum hefst klukkan 19:15 þriðjudaginn 30. júlí. Nú reynir á okkar menn og það reynir á stuðninginn, fyllum heimavöllinn og hvetjum strákana áfram í leit að næstu stigum til að komast upp töfluna. Miðasalan er á Stubbi.
Grótta og Leiknir eru í 10. og 11. sæti deildarinnar í harðri baráttu um að halda sér ofan við falllínuna. Aðeins munar einu stigi á liðunum og því ansi mikið undir í þessum leik.
Grótta er í 10. sætinu með 13 stig eftir 3 sigra og 4 jafntefli. Markatalan hjá Gróttu eftir 14 leiki er 22:33. Ekkert lið hefur fengið á sig jafn mörg mörk og Grótta en aðeins þrjú efstu liðin í deildinni hafa náð að skora meira en Grótta á þessu tímabili. Dreifingin á markaskorun hefur verið fín hjá þeim. Markahæstu leikmenn Gróttu eru Arnar Daníel Aðalsteinsson og Damian Timan með fjögur mörk hvor. Kristófer Orri Pétursson og Pétur Theódór Árnason hafa skorað þrjú hvor, Gabríel Hrannar Eyjólfsson og Tómas Orri Róbertsson tvö hvor, tveir leikmenn eru með eitt mark hvor og tvö Gróttumörk voru sjálfsmörk andstæðinga.
Leiknir er í 11. sæti með 12 stig. Öll stigin hafa komið eftir sigra og markatala Leiknis er 15:24. Omar Sowe er markahæstur Leiknis með 6 mörk, Shkelzen er með 3 og Róbert Quental með 2.
Grótta vann fyrri viðureign þessara liða á sínum heimavelli í lok maí með fjórum mörkum gegn þremur í fjörugum og dramatískum markaleik. Eftir þann leik gerði Grótta tvö jafntefli, tapaði sjö leikjum en vann loks aftur í síðasta leik með öðru dramatísku sigurmarki í lok leiks gegn Grindavík.
Leiknir náði þremur góðum sigrum í röð í júní en hefur tapað fjórum leikjum síðan þá, öllum með aðeins eins marks mun og þremur þeirra 0:1. Það vantar aðeins herslumuninn upp á að fara að snúa einhverjum af þessum leikjum í eitt stig eða þrjú stig.
Nýtum þetta þriðjudagskvöld vel, mætum á völlinn og sendum okkar bestu hvatningu inn á völlinn.
Áfram Leiknir!