Fara á efnissvæði
IS EN PL
Screenshot 20230909 230554 Gallery
Fréttir | 03.09.2023

Njarðvík 2-4 Leiknir

Aðra helgina í röð settu okkar menn strik í reikninginn á bæjarhátíð andstæðinga sinna þegar þeir spilltu Ljósanæturpartý þeirra Njarðvíkurmanna með því að taka öll 3 stigin og setja 4 mörk á þá. Það verður þó ekki tekið af veðrinu að það setti stærsta strikið í reikninginn.

Ekki tókst að flýta leiknum eins og var gert í tveimur tilfellum í þessari umferð og því þurfti að spila í miklum vindi og skúrum inn á milli. Okkar menn voru undirbúnir fyrir slíkt og sýndu flotta baráttu í afleitum aðstæðum allan leikinn með góðum stuðningi frá nokkrum hetjum úr Breiðholtinu en það mátti telja stuðningsmenn heimamanna á puttum annarrar handar þegar leikurinn var flautaður á. 

Hreggviður Hermannsson setti fyrsta mark leiksins í eigið mark á 26. mínútu og Danni Finns tvöfaldaði forrystuna af vítapunktinum en heimamenn gerðu réttmæta kröfu á að það væri ógilt þar sem Danni virtist renna til og snerta boltann tvisvar. Þeim varð ekki að ósk sinni en Kenneth Hogg minnkaði þó muninn tveimur mínútum síðar og því var 1-2 þegar liðin héldu til búningsklefa að hlýja sér. 

Danni Finns slóg heimamenn svo kalda þegar aðeins 4 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik og þó að Omar Diouck hafi náð að klóra í bakkann voru okkar menn alltaf líklegri og okkar eigin Omar Sowe rak smiðshöggið þegar hann skoraði 73. mínútu. 2-4 sigur og sæti í úrslitakeppninni tryggt. 

Nú er bara að bíða og sjá hver andstæðingurinn þar verður en það er víst að mikil eftirvænting ríkir í Breiðholtinu fyrir tilhugsuninni að fjölmenna á Laugardalsvöll í lok mánaðarins og hrifsa til okkar aftur sæti í Bestu deildinni. Nú er bara að styðja strákana heilshugar í því verkefni. 

#StoltBreiðholts