Fara á efnissvæði
IS EN PL
Fréttir | 28.08.2025

Njarðvík í þriðja síðasta leik tímabilsins

Leiknir og ÍR skildu jöfn í Breiðholtsbaráttuleiknum í síðustu umferð, bæði lið skoruðu eitt mark og tóku með sér eitt stig úr leiknum. Gestirnir úr Seljahverfinu voru sprækari í fyrri hálfleik en Leiknir sterkari í seinni hálfleik. Næsti leikur verður föstudaginn 29. ágúst þegar Leiknir heldur til Njarðvíkur. Helgi Mikael Jónasson sér um dómgæsluna og flautar leikinn í gang klukkan 18:00. Samkvæmt tilkynningu á Facebooksíðu knattspyrnudeildar Njarðvíkur verður frítt á völlinn í boði BM Vallá. Við hvetjum Leiknisfólk til að nýta sér það góða tilboð og fjölmenna til Njarðvíkur.

Það var Axel Freyr Harðarson sem jafnaði metin gegn ÍR í seinni hálfleik síðasta leiks með góðri afgreiðslu eftir flottan sprett í gegnum vörn gestanna. Hann skoraði einmitt fyrsta mark Leiknis á tímabilinu í 1:1 jafntefli gegn Þrótturum í fyrstu umferðinni. Stigið þýddi að Leiknir hélt 10. sætinu í deildinni en önnur úrslit umferðarinnar þýddu að Fylkir fór upp fyrir Leikni en Selfoss datt niður í fallsæti í staðinn. Leiknir er því áfram í 10. sætinu, nú með 17 stig í 19 leikjum og markatöluna 21:36. Selfoss er þar fyrir neðan í 11. sæti með 16 stig og Fjölnir í 12. sætinu með 15 stig. Þetta eru einmitt næstu tveir mótherjar Leiknis á eftir leiknum gegn Njarðvík. Fyrir ofan Leikni er Fylkir í 9. sæti með 17 stig eins og Leiknir, Grindavík í 8. sætinu með 18 stig og Völsungur í 7. sæti með 19 stig. Það er því hörku spenna í Lengjudeildinni fyrir síðustu þrjár umferðirnar og mikið af innbyrðis leikjum sem munu ráða úrslitum um hvernig lokastaðan verður.

Njarðvík er í þriðja sæti deildarinnar með 37 stig og markatöluna 43:22. Þeir eiga tvo af markahæstu leikmönnum deildarinnar, Oumar Diouck hefur skorað 11 mörk og Dominik Radic 10 mörk. Á eftir þeim kemur Amin Cosic með 6 mörk og Tómas Bjarki Jónsson með 4 mörk.

Síðast þegar þessi lið mættust þá endaði leikurinn með 1:1 jafntefli í Efra-Breiðholtinu. Valdimar Jóhannsson kom Njarðvíkingum yfir í lok fyrri hálfleiks en Dusan Brkovic jafnaði á 89. mínútu.

Njarðvíkingar fóru á topp Lengjudeildarinnar um tíma en hafa nú tapað tveimur leikjum í röð gegn tveimur efstu liðunum, fyrst 2:3 gegn Þrótti í Njarðvík og nú síðast 3:1 gegn Þórsurum á Akureyri. Þeir koma því væntanlega mjög ákveðnir inn í þennan leik og stefna á að halda sér í toppbaráttu deildarinnar fyrir síðustu tvo leikina.

Við þurfum því á öllum höndum að halda í þessum róðri og allar hvatningaraddir skipta máli.

Áfram Leiknir!