Fara á efnissvæði
IS EN PL
Fréttir | 16.07.2024

Njarðvík úti í næsta leik

Í þrettándu umferð Lengjudeildarinnar fer Leiknir eftir Reykjanesbrautinni og heimsækir Njarðvík sem kom einmitt í Breiðholtið í fyrsta leik tímabilsins. Í þetta sinn verður leikið á Rafholtsvellinum í Reykjanesbæ og hefst leikurinn klukkan 19:15, fimmtudaginn 18. júlí. Njarðvík flaug hátt framan af móti, hefur ekki verið á alveg jafn miklu skriði síðustu fjórar umferðir en er ennþá í 2. sæti deildarinnar. Þetta verður hörku leikur og við hvetjum að sjálfsögðu Leiknisfólk til að skella sér í gott ferðalag til að styðja strákana í þessum leik.

Njarðvík er með 21 stig eftir 12 leiki, hefur unnið 6 leiki, gert 3 jafntefli og tapað 3 leikjum. Í síðustu fjórum leikjum er niðurstaðan 2 jafntefli og 2 tapleikir. Markatalan hjá Njarðvík í sumar er 22:15. Markahæstu leikmenn Njarðvíkur eru Dominik Radic og Omar Diouck, þeir hafa báðir skorað sex mörk í sumar. Radic skoraði sitt fyrsta mark í 1:2 sigri Njarðvíkur á Domusnovavellinum í fyrstu umferð. Arnar Helgi Magnússon, Kaj Leó Í Bartalstovu og Kenneth Hogg hafa allir skorað 2 mörk auk þess sem fjórir leikmenn hafa lagt til eitt mark hver.

Njarðvíkingar hafa tapað síðustu tveimur heimaleikjum sínum. Fyrst 2:5 gegn Aftureldingu og svo 0:1 gegn nágrönnunum úr Grindavík. En sitt hvorum megin við þá tapleiki gerði Njarðvík 1:1 jafntefli við Keflavík og 0:0 jafntefli við Dalvík/Reyni á útivöllum.

Leiknir er í 10. sæti deildarinnar með 12 stig eftir 12 leiki. Fjórir sigrar og 8 töp, Leiknir er eina liðið sem á eftir að gera jafntefli í deildinni. Markatala Leiknis er 13:20. Markahæsti leikmaður Leiknis er Omar Sowe með 5 mörk. Shkelzen Veseli kemur þar á eftir með 3 mörk. Róbert Quental hefur skorað 2 mörk. Jón Hrafn og Róbert Hauks með eitt mark hvor ásamt einu sjálfsmarki.

Þessi lið hafa mæst 20 sinnum á fótboltavellinum til þessa í meistaraflokki karla. Leiknir hefur unnið 11 leiki, Njarðvík hefur unnið 6 leiki og 3 hafa endað með jafntefli. Markatalan í þessum innbyrðis viðureignum er 40:23, Leikni í hag. 

 

Miðasalan fyrir leikinn er á smáforritinu Stubbi.

Áfram Leiknir!