Fara á efnissvæði
IS EN PL
Newbadgeshirtetc
Fréttir | 03.05.2023

Nýtt merki og nýr búningur Leiknis

Á stuðningsmannakvöldinu síðastliðinn föstudag var nýtt merki félagsins kynnt ásamt keppnisbúningum
næstu tveggja ára í það minnsta. Á 50 ára afmæli félagsins var ákveðið að taka merkið til gagngerrar
endurskoðunar í stað þess að reyna að vinna með gamla góða merkið sem þó hverfur ekkert í bráð, enda
þarf lítið félag að nýta það sem það hefur og láta endurnýjunina eiga sér stað yfir tiltölulega langt skeið.

Eins og sjá má er nýja merkið einfaldur skjöldur með litum félagsins neðst og tignarlegt ljónshöfuð þar
fyrir ofan með nafni félagsins þar á milli. Fólk utan félagsins hefur í seinni tíð augljóslega tengt félagið
sterkt við stuðningsmannahópinn Leiknisljónin sem stóð alltaf fyrir sínu í stúkunni en hefur nú liðið undir
lok og Ghetto Boys hafa komið glæsilega ferskir í þeirra stað.

Merkið er gert úr þremur aðallitum
félagsins en er sett upp í tveimur útgáfum til notkunar á aðal- og varabúninga félagsins meðal annars.
Vissulega hefur félagið stuðst við einkunnarorðin “Stolt Breiðholts” til margra ára og er ljónið víðs vegar
um heiminn holdgervingur stolts. Dýrið er ekki það stærsta í dýraríkinu en með kænsku og baráttuþreki
hefur því tekist að afla sér virðingar á sínum vettvangi og leggja af velli það sem við fyrstu sín ættu að
teljast ofurefli. Það er eitthvað sem litla félagið okkar í efri byggðum Breiðholts hefur alltaf getað tengt
við. Okkar leikmenn eru hópur ljónshjarta sem berjast fyrir hverfið sitt í hverjum leik til að auka hróður
111.


Það þótti því tilvalið að sameina þessa krafta í nýtt merki félagsins í stað “L”-sins sem birtist sem ljár með
rúnum og gamals leðurbolta. Ljón eru þekkt í ýmsum formum á skjöldum íþróttaliða um allan heim en
ekki síst á Bretlandi þar sem England og Skotland hafa ljón í skjöldumi sínum. Nú þegar íslensk
knattspyrna fær sífellt meiri dreifingu og áhuga erlendis frá er ekki verra að fólk sjái eitthvað kunnuglegt
í merki eins stolts félags í úthverfi Reykjavíkur og taki jafnvel ástfóstri við það.


Það skal þó ítrekað að merki félagsins til síðustu 50 ára er ekki með þessu afmáð á nokkurn máta.
Vonandi heldur það áfram að lifa góðu lífi sem merki þeirra sem byggðu félagið upp fyrstu 50 árin og
öðlist enn meira gildi sem merki nostalgíu hjá félaginu.

 

Nýjar Treyjur:

Nýjar treyjur sem eru á leið til landsins voru einnig kynntar og er það fyrsti varningur sem ber nýtt merki
félagsins. Á þessum tímamótum 50 ára afmælis var einnig ákveðið að bregða aðeins útaf vananum með
því að kveðja hefðbundnu rauðu og bláu renndur heimabúningsins og taka inn aðeins meira abstrakt
flæðandi línur. Innblásturinn fyrir þessu er tekinn frá öðrum liðum eins og Crystal Palace sem hafa reynt
þá nýbreytni að vera aðeins meira töff framyfir hefðbundið útlit. Yfirleitt er það yngri kynslóðin sem klæðist knattspyrnutreyjum
dagsdaglega og þá er ekki verra að þær séu meira en minna spennandi. Varatreyjan er svo aðeins meira
hefðbundin treyja að ítölskum sið sem þó heldur góðum varatreyjulitum félagsins með “Stolt Breiðholts”
i krossinum.


 Að síðustu ber að fagna því augljósa að nýr aðalstyrktaraðili er fundinn á keppnistreyjurnar. Sjóva hafa
stigið inn í samstarf við félagið með myndarlegum hætti og hjálpar það okkur mikið að hafa svo stóran
og virtan styrktaraðila eftir að hafa þurft að sætta okkur við sæti í Lengjudeildinni um sinn. Með þeirra
hjálp er miðið sett rakleiðis upp í deild þeirra bestu aftur.

 

#StoltBreiðholts