Selfoss 2-4 Leiknir
Í gær gerðu Leiknismenn sér góða ferð austur á Selfoss og hefndu tapsins á teppinu í vor með góðum 2-4 sigri gegn Gary Martin og félögum í ungmennafélaginu þar í bæ.
Annan leikinn í röð náðu okkar menn að snúa tapleik í sigur í seinni hálfleik en þessi sigur var í öruggari kantinum. Og sá þriðji af síðustu fjórum leikjum. Við fjarlægjumst fallbaráttuna og þá má búast við meiri ró í kringum allt sem verið er að vinna hér í Breiðholtinu.
Omar Sowe skoraði snoturt mark á 25. mínútu einn á móti markverði en Guðmundur Tyrfingsson svaraði fyrir það aðeins 2 mínútum síðar fyrir heimamenn og í leikhléi var jafnt. Okkar menn byrjuðu seinni hálfleikinn illa og því kom ekkert á óvart þegar Selfyssingar tóku forrystuna eftir 16 mínútur af andleysi og virtist stefna í kunnuglegt stef fyrir okkar menn.
Hins vegar spýttu menn í lófanna og innáskiptingar Fúsa báru heilmikinn árangur með Hjalta Sig þar fremstan í flokki að drífa upp baráttuna og vinnsluna á miðjunni. Danni Finns setti víti eftir ódýran dóm en við þiggjum það á 67. mínútu og Djúsflugan bætti við öðru glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu á 78. mínútu. Hjalti setti svo smiðshöggið á sigurinn þegar 10 mínútur lifðu af venjulegum leiktíma og gátu leikmenn og stuðningsmenn fagnað innilega í leikslok.
Þessi úrslit og gott gengi í síðustu leikjum þýðir að um sinn erum við allt í einu komin upp í miðja deild í 6. sætið með 2 heimaleiki í röð framundan gegn tveimur liðum sem eru í sætunum fyrir neðan okkur til að slútta júlímánuði. Það er aldrei leiðinlegt að horfa á liðið okkar og skorum við því á sem flesta að mæta í Holtið og veita þeim stuðning sinn þegar Þróttarar koma í hefndarhug á fimmtudagskvöld. Skorum 4. flest mörkin í deildinni og fáum á okkur flest mörk ásamt Ægi. Aldrei leiðinlegt eins og áður segir.
#StoltBreiðholts