
Sex stiga nágrannaslagur
Eftir frábæra byrjun í Grindavík var grátlegt tap staðreynd og nú er bakið upp við vegginn í Lengjudeildinni. Næsti leikur er gríðarlega mikilvægur fyrir framhaldið þegar nágrannarnir í Fylki koma í heimsókn í Breiðholtið. Þetta eru liðin í 11. og 12. sæti deildarinnar. Hvert stig skiptir máli í baráttunni og núna þurfum við sigur. Áhorfendur, stuðningur og hvatning skipta máli í þeirri vegferð, því hvetjum við allt Leiknisfólk til að fjölmenna í stúkuna og hjálpa okkar mönnum inni á vellinum. Sem fyrr er hægt að kaupa miða á Stubbi, hér er tengill á miðasöluna.
Leikurinn hefst kl. 18:00 miðvikudaginn 13. ágúst. Dómari leiksins verður Ívar Orri Kristjánsson.
Liðin mættust síðast á Fylkisvellinum í byrjun júní í fyrsta leiknum hjá Ágústi Gylfasyni. Þá skoruðu Dagur Ingi Hammer og Þorsteinn Emil Jónsson fyrir Leikni og Þóroddur Víkingsson fyrir Fylki.
Fylkir spilaði gegn Þór í síðustu umferð og tapaði þeim leik 1:2. Liðið hefur unnið tvo leiki í sumar, gegn Selfossi á heimavelli í 2. umferð og gegn Völsungi á útivelli í 10. umferð. Að auki hafa Fylkismenn gert fimm jafntefli, síðast 3:3 jafntefli gegn Fjölni í 14. umferð. Þeir hafa skorað 21 mark og fengið á sig 28. Markahæstu leikmenn Fylkis í sumar eru Eyþór Aron Wöhler með fjögur mörk og síðan koma Ásgeir Eyþórsson, Emil Ásmundsson, Pablo Aguilera Simon og Þóroddur Víkingsson allir með þrjú mörk.
Leiknismegin er Dagur Ingi Hammer markahæstur með sex mörk og Shkelzen Veseli er kominn í fjögur mörk.
Áfram Leiknir!
Við viljum líka benda á að Leiknir og Errea halda upp á 30 ára samstarfsafmæli með útgáfu á flottri Leiknispeysu. Hérna er hægt að skoða hana betur: https://shop.errea.is/felagslid/leiknir/leiknir-30