Fara á efnissvæði
IS EN PL
Siggigladur
Fréttir | 10.04.2022

Siggi: "Second Season Syndrome á ekki við um okkur"

Á Leikmannakynningunni á föstudag hélt Siggi Höskulds í hefðina með að ávarpa gesti í húsi og svara spurningum.

Siggi fór stuttlega yfir undirbúningstímabilið. "Við erum búnir að vera mjög ánægðir með undirbúningstímabilið. Þetta er í fyrsta sinn síðan ég kom hingað sem það er búist við einhverju af okkur. Ég held að leikmennirnir sem standa hérna uppi eigi rosalegt hrós skilið fyrir að vera búnir að koma þessu liði á þennan stað að fólkið í þessu landi hefur trú á þessu liði í efstu deild. Mér finnst stundum eins og fólk átti sig ekki á því hvers konar afrek það er að þessir strákar séu komnir með liðið á þennan stall." 

Siggi minntist einnig á umgjörðina utan um liðið. "Annað merkilegt sem gerðist á undirbúningstímabilinu er að við endurheimtum Leiknisljónin, sem er risa, risa, risa biti á leikmannamarkaðinum. Svo ætlar Gísli Grill að taka slaginn aftur með okkur í liðsstjórninni sem er mikið gleðiefni" 

Þá tóku við spurningar úr sal frá stuðningsmönnum: 

Hvað getur Leiknir gert meira til auka stemninguna í stúkunni: “Það er mikill hugur í mönnum og fullt af hugmyndum sem við erum búnir að ræða á fundum. Við ætlum í sumar að kynna nýjan Leiknismann í “Wall of Fame” á hverjum heimaleik til dæmis. Sem er virkilega skemmtilegt.“

Því má bæta við að Siggi ætlar að setjast niður með stuðningsmönnum sem mæta tímanlega í Gleðistund á heimavelli í sumar. Hann ætlar að tilkynna þeim byrjunarliðið og fara yfir hvernig ætlunin er að sigra leikinn hverju sinni ca klukkustund áður en sparkað er af stað. 

Er búið að loka hópnum?:Við erum búnir að loka hópnum enda sjáið þið það að þetta er fullkominn hópur hérna.”

Hvert er markmiðið í sumar?: “Sko, markmiðasetning er vandmeðfarin. Þegar Stebbi Gísla kom hér þá settum við markmið fyrir fyrstu 4 leikina að fá eitthvað ákveðið af stigum og eitthvað svoleiðis. Það gekk ekki og næstu 4 leikir þá gekk það ekki heldur þannig að eftir að ég tók við höfum við ákveðið að halda ákveðinni markmiðasetningu í lágmarki og meira að vinna með, eins og ég hef sagt áður, hugarfar og stemningu og að verða betri með hverjum deginum. Það hefur einhvern veginn virkað rosalega vel fyrir þennan hóp og fyrir okkur. Og miðað við það að okkur er alltaf spáð þremur, fjórum sætum neðar en við endum þá er klárlega þarna stallur í efri hlutanum sem er ákveðin gulrót og við ætlum að reyna að keyra á.”

Second Season Syndrome. Eru menn búnir að undirbúa sig andlega fyrir að falla ekki í þá gryfju?: “Ég held að við sem hópur erum ekki mikið að pæla í því sem er verið að segja um hópinn útávið og eitthvað Second Season Syndrome (lið sem halda sér uppi eitt tímabil, eiga það til að hrynja tímabilið á eftir) er eitthvað sem við erum ekki að velta fyrir okkur. Ég held að við ákváðum í fyrra að þeir sem höfðu verið með í vegferðinni að koma okkur upp, þeir myndu fá að spjara sig á stóra sviðinu. Við vorum ekki með mikla reynslu í efstu deild. Laaaangminnstu reynsluna reyndar. Nú erum við komnir með töluvert meiri reynslu í efstu deild. Nánast hver einasti leikmaður hér. Og nú erum við búnir að fá reynslumikla leikmenn inn svo þetta getur ekki átt við um okkur.” 

Af þessu má dæma að Siggi og þjálfarateymið eru hæstánægðir með hvernig liðið kemur undan vetri og eru klárir í fyrsta leik sem verður fyrir norðan þann 20.apríl. Daginn fyrir sumardaginn fyrsta. Af föstudagskvöldinu að dæma er töluverður fjöldi stuðningsmanna á leið norður að styðja við bakið á liðinu enda veitir þeim ekki af góðri byrjun á velli sem reyndist erfiður í fyrra. 

#StoltBreiðholts